Fæðuval refa

Sælt veri fólkið.

 Ég hef annaðslagið undanfarin ár verið í sambandi við Pál Hersteinsson. Sem er sá sem hefur stundað mestar rannsóknir á refum og þeirra lífsháttum. Páll sér einnig um vöktun refastofnsins. Á hann miklar þakkir fyrir ævinlega skjót og góð svör.  Nú um daginn þá spurði ég hann hvort hann væri til í að svara spurningum frá mér og ég myndi svo birta spurningarnar og svörin hér á blogginu hjá mér. Hann tók nú heldur betur vel í það og ég sendi á hann 15 spurninga lista. Þar sem að ég get verið kræfur í spurningum þá munu þetta verða afar greinargóð svör. Þess vegna mun ég birta þetta hér reglulega 1-2 spurningar í senn.  Alla vega hér er fyrsta spurningin.

Fyrsta spurningin hljóðar svona:

1. Hvað er megin uppistaða í fæðuvali refa? Er það t.d. Misjafnt eftir landshlutum? Þarf kanski líka að taka tillit til árstíma?

 

Fæða refa er ákaflega misjöfn eftir landshlutum og árstíðum. Það er því ekki auðvelt að svara þessari spurningu í stuttu máli. Mun meira er þó vitað um fæðuval að sumarlagi en að vetrarlagi. Þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að meta fæðuval eru nokkrar en þessar eru helstar: (1) greining á fæðuleifum í saur, (2) skráðar fæðuleifar við greni og (3) greining á fæðuleifum í maga.

Eina rannsóknin hérlendis á fæðuleifum í refasaur á öllum árstímum, sem mér er kunnugt um, var gerð í Ófeigsfirði á Ströndum árin 1978 og 1979 og var sagt frá henni árið 1987 í Fréttabréfi veiðistjóra 3(2), bls. 16-30. Niðurstöður sýndu að þar var breytileiki í fæðuvali afar mikill eftir árstíðum. Niðurstöðurnar eru teknar saman eftir mánuðum í línuritunum hér fyrir neðan.

línurit 1 Línuritin sýna fæðuval annars vegar sem tíðni þess að tiltekin fæðutegund kom fyrir í saur og hins vegar sem hlutfallslegt magn þurrefnis af tiltekinni fæðutegund í saur. Heil lína táknar árið 1978 en punktalínan árið 1979. Í stuttu máli sýndu niðurstöður að svartfugl var mikilvæg fæða að vetrarlagi en síður að sumarlagi. Fýll og æðarfugl voru mikilvæg fæða að sumarlagi en ekki að vetrarlagi. Rjúpa var ekki mikilvæg fæða en þó heldur algangari að vetrarlagi en að sumarlagi. Hagamýs og krabbadýr (t.d. marflær) voru algengar í fæðu að haustlagi en ekki á öðrum árstímum. Mikill munur var milli ára að því leyti að síðla vetrar og vorið 1979 lá hafís við land og mjög kalt var um vorið og sumarið. Það hafði þau áhrif að krækilyng bar ekki ber það árið og krækiber, sem refir höfðu étið mikið af haustið 1978, komu varla fyrir í fæðunni haustið 1979. Hins vegar var mikið af leifum þangflugulirfa og púpa í saurnum síðsumars og haustið 1979, en hafísinn hafði skafið þang af botni og kastað á land um veturinn. Því voru miklir bunkar af rotnandi og hlýju þangi víða í fjörum sem þangflugur nýttu sér og urðu þær fæða fyrir refi í stað krækiberja það haustið. Þá rak minna af svartfugli vetur og vor 1979 vegna hafíssins en árið áður og kom það fram í fæðuvali. Ég safnaði líka saur við greni í Hálsasveit og á Arnarvatnsheiði í júlí 1980 og 1981 (71 sýni). Þar var hlutfall þurrefnis í saur eftirfarandi: Vaðfuglar 76%, rjúpa 10%, sauðfé 6%, spörfuglar 4%, andfuglar 2%, jurtir 2% og annað (þ.á m. eggjaskurn) <1%. Þessar niðurstöður eiga þá við um sumarfæðu dýranna þarna.    Loks greindi ég saur (135 sýni) sem safnað var við Snæfell og á Vesturöræfum á tímabilinu maí-ágúst 1979-1981. Þar var fæðan töluvert öðruvísi, en hlutfall þurrefnis í saur var eftirfarandi: Hreindýr 29%, andfuglar 24%, sauðfé 16%, vaðfuglar 15%, rjúpa 11%, krækiber 3%, skordýr 1%, annað (spörfuglar, eggjaskurn, hagamýs) 1%. Hins vegar var mikið af þessum saur gamall, líklega frá vetrinum, enda ekki safnað við greni.

Grenjaskyttur sem senda mér hræ af unnum refum fylla út eyðublað með hverju dýri þar sem ég bið þá um að geta um helstu fæðuleifar á viðkomandi greni. Þessar upplýsingar gefa nokkra mynd af því hvar algengast er að finna viðkomandi tegundir meðal fæðuleifa á greni. Þegar hlutfall grenja með viðkomandi fæðuleifum er skoðað eftir fjarlægð grenis frá sjó sést að dreifing flestra fæðutegunda er mjög misjöfn eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan. Eftirtaldar tegundir verða marktækt algengari eftir því sem grenið er nær sjó: Fýll, svartfuglar, æðarfugl, hrognkelsi og máfar (þ.á m. rita og kría). Eftirtaldar tegundir verða hins vegar marktækt algengari eftir því sem fjær dregur sjó: Gæsir, rjúpa, vaðfuglar, spörfuglar og endur (aðrar en æðarfugl).  

línurit 2

Mikilvægt er að hafa í huga að þessi gögn veita aðeins takmarkaðar upplýsingar um

mikilvægi einstakra tegunda eða tegundahópa fyrir tófuna. Sumar tegundir eru meira áberandi eða endast lengur á grenjum þannig að meiri líkur séu á að skyttur skrái þær sem fæðuleifar. Til þess að athuga hvernig samræmi væri milli fæðuvals fullorðinna dýra og fæðuleifa á grenjum var gerður samanburður á magainnihaldi grendýra við sjó (Hólmfríður Sigþórsdóttir líffræðingur vann þá rannsókn) og fæðuleifa grenja við sjó, en niðurstöðurnar eru sýndar á myndinni hér fyrir neðan. Hvort tveggja eru tíðnigögn, því að gögnin leyfðu ekki magnbundinn samanburð

línurit 3

Bláu súlurnar sýna magainnihald en rauðu súlurnar sýna fæðuleifar á greni. Ljóst er að fullorðnu dýrin éta nokkuð af hryggleysingjum, fyrst og fremst skordýr á borð við þangflugur, fiðrildalirfur og æðvængjur (aðallega hunangsflugur) sem þau bera eðlilega ekki heim á greni. Þá er ákveðinn hópur fæðutegunda sem er algengara að finna í maga fullorðnu dýranna en meðal skráðra fæðuleifa á greni. Þar má telja hagamýs, egg ýmissa tegunda, spörfugla, vaðfugla og máffugla. Sauðfé var álíka algengt í maga dýra og meðal skráðra fæðuleifa. Þá var eftirtalin fæða algengari meðal skráðra fæðuleifa á greni en í maga fullorðnu dýranna: Andfuglar, rjúpur, svartfuglar og fýll. Loks komu hrognkelsi og aðrir fiskar fyrir meðal fæðuleifa á greni en fundust ekki í maga dýranna.

Þessi munur á fæðu fullorðinna dýra og fæðuleifa á grenjum getur átt sér tvær orsakir sem ekki útloka hvor aðra. Augljóst er að smágerð fæða á borð við hryggleysingja er étin en ekki borin heim á greni. Þá er hugsanlegt að dýrin séu líklegri til að éta aðra smáa bráð en að bera þau heim á greni og getur það t.d. átt við um hagamýs, egg og spörfugla. Það er nokkuð augljóst að hagkvæmara er að bera stóra bráð heim á greni en smáa. Svo er hugsanlegt að grenjaskyttur veiti fremur athygli stórgerðri eða áberandi bráð, t.d. fýl, rjúpu og æðarfugli, og skrái hana því frekar sem fæðuleifar á greni en smærri bráð.

Þrátt fyrir þessa annmarka gefa upplýsingar um fæðuleifar á greni mikilvægar upplýsingar. Sannleikurinn er sá að vistkerfi eru kvik, þ.e. stofnar stækka og stofnar minnka. Fæða refanna getur veitt nokkra innsýn í það. Dæmi um það er tíðni fýls meðal fæðuleifa á greni. Ég hef skipt landinu í tvennt, vestanvert landið (frá Reykjanesskaga í suðri til og með Vestfjarðakjálka í norðri) og austanvert landið (frá Árnessýslu og Húnavatnssýslum í vestri og austur um). Þessi skipting er fyrst og fremst gerð af hagkvæmnisástæðum en á sér þó vistfræðilega réttlætingu þar sem vestanvert landið er með afar langa strandlengju miðað við flatarmál, ólíkt austanverðu landinu eins og það er skilgreint hér.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig tíðni grenja með fýlaleifum breyttist á tímabilinu 1980-2005:

línurit 4

Eins og sjá má jókst tíðni fýlaleifa á grenjum bæði á vestanverðu (vinstra línurit) og austanverðu landinu (hægra línurit) á fyrri hluta tímabilsins eða frá því um 1980 og fram undir aldamótin. Þessar breytingar ríma mjög vel við það sem þekkt er um breytingar á varpútbreiðslu og stærð varpstofns fýls en fjöldi þekktra fýlavarpa tífaldaðist á seinni hluta síðustu aldar en undanfarinn áratug eða svo hafa fýlavörp farið minnkandi.

Auk þess sem gögn um fæðuleifar á grenjum geta veitt upplýsingar um breytileika í fæðuvali milli landshluta og breytingar með tíma, getur nákvæmari athugun á fæðuleifum veitt upplýsingar um breytileika á minni mælikvarða. Árið 1999 var farið á öll þekkt greni í Hornstrandafriðlandi og fæðuleifar skráðar nákvæmlega. Á kortinu hér fyrir neðan má sjá greni í ábúð það sumar (rauðir deplar) auk annarra grenja sem ekki voru í ábúð (opnir hringir). Friðlandinu er þarna skipt í þrennt, þ.e. Sléttuhrepp hinn forna (nyrst og vestast), Grunnavíkurhrepp Strandamegin og Grunnavíkurhrepp Jökulfjarðamegin. Í töflunni undir kortinu má sjá fæðuleifarnar sem fundust á grenjunum. Þessar niðurstöður birtust upphaflega árið 2000 í Náttúrufræðingnum 69, bls. 131-142.

línurit 5

Hér eru gögnin magnbundin, þ.e.a.s. fjöldi leifa af hverri tegund var talinn, ekki aðeins getið um hvort viðkomandi bráð var til staðar. Munurinn milli svæða innan friðlandsins er áhugaverður. Í Sléttuhreppi eru m.a. sum stærstu fuglabjörg landsins og þar var svartfugl helsta fæðan eða rúmlega 40% fæðuleifa. Næst kom fýll og loks rita en aðrar tegundir voru í minna mæli. Strandamegin í Grunnavíkurhreppi var svartfugl aðeins 15% fæðuleifa en þess ber að geta að þar er ekkert svartfuglsvarp svo að líklega eru þetta aðallega leifar sjórekins fugls. Fýll var aftur á móti algengasta fæðugerðin, um 75%, en aðrar tegundir voru óverulegur hluti fæðuleifa. Jökulfjarðamegin í Grunnavíkurhreppi er allt annað uppi á teningnum. Þar var fýll yfir 90% fæðuleifa og sáralítið af annarri fæðu. Þarna sést vel hve miklu máli aðgangur að bjargfugli og reka skiptir fyrir fæðuval refanna í friðlandinu. Fýll verpir víða og því aðgengilegur refum í Jökulfjörðum þótt þar séu engin eiginleg fuglabjörg og reki afar takmarkaður. Jafnframt sést á kortinu hve hlutfallslega miklu fleiri greni voru í ábúð í norðanverðu friðlandinu en í því sunnanverðu. Þá má líka benda á, sem ekki kemur fram í töflunni en má reikna út frá henni, að meðalfjöldi fæðuleifa á hverju greni var mestur í Sléttuhreppi hinum forna (14,6), næstmestur í Grunnavíkurhreppi Strandamegin (12,0) en langminnstur í Grunnavíkurhreppi Jökulfjarðamegin (5,8). Allt bendir þetta til að Jökulfirðirnir séu lakara búsvæði fyrir refi en norður-og vestursvæðið.

Eins og hér hefur komið fram er meira vitað um fæðuval refa að sumarlagi en vetrarlagi. Hins vegar er mikilvægt að afla frekari upplýsinga um fæðuval að vetrarlagi þar sem frjósemi refa er væntanlega afar háð aðgangi að fæðu um og fyrir fengitíma. Þess vegna er núna í gangi rannsókn á vetrarfæðu refanna með rannsókn á magainnihaldi sem Hálfdán Helgi Helgason líffræðingur sér um. Það er hins vegar hægara sagt en gert að fá rétta mynd af fæðu dýra að vetrarlagi því að flest veiðast þau við agn og því er afar líklegt að skekkt mynd fáist. Enn á eftir að ráða fram úr hvernig leiðrétta má fyrir þá skekkju. Jafnframt má geta þess að enn sem komið er ná gögnin aðeins yfir tvo vetur, 2007-2008 og 2008-2009 og gögnin hafa heldur ekki verið greind eftir landshlutum eða mánuðum (veturinn er hér skilgreindur sem tímabilið október-apríl).

Bráðabirgðaniðurstöður eru þessar: Rúmlega 60% magainnihalds voru leifar spendýra, þar af meiri hlutinn (80-85%) af sauðfé og hrossum sem refaskyttur höfðu vafalaust borið út fyrir refi en önnur spendýr voru hreindýr og hagamýs. Fuglar voru um fjórðungur magainnihaldsins. Af þeim hluta voru sjófuglar rúm 40%, rjúpa um 25%, andfuglar rúm 10%, spörfuglar og vaðfuglar 12% samanlagt en afgangurinn voru aðrar og ógreindar tegundir. Rétt er að ítreka að þessari rannsókn er alls ekki lokið.

Hér hefur verið farið yfir helstu upplýsingar sem fyrir liggja um fæðuval refa á Íslandi. Niðurstaðan er sú að fæða íslenska refsins sé afar fjölbreytt og breytileg milli landshluta, m.a. eftir fjarlægð frá sjó, sem og eftir árstíðum. Tófan er tækifærissinni og nýtir sér það sem fyrir hendi er á hverjum stað á hverjum tíma, hvort sem um er að ræða náttúrulega fæðu eða útburð okkar mannanna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Björnsson

Endilega láta mig vita hér inná commentinu hvort línuritin sjáist vel,  eða alls ekki.

kv, Sveinn

Sveinn Björnsson, 14.12.2010 kl. 21:24

2 identicon

Sæll

Skemmtilegar upplýsingar frá Páli.  Gaman að sjá svona rannsóknir og línurit.  Skemmtileg mynd af því hvar voru virk greni á Hornströndum og hvar voru óvirk þekkt greni.  Kemur á óvart að svona fá séu inn til landsins?  Það er kanski ekki fylgst með þeim, allavega ekki eins mikið.  Einnig vakti athygli mína hvað hann gefur lítið fyrir að refur éti rjúpu.

Vetrarrannsókninar eru svo skemmtilegar, það væri best að það væri haldið til haga þeim tófum sem eru skotnar við æti og hinsvegar á víðavangi.

Alltaf gaman af þessum pælingum hjá þér.

Morri (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 00:22

3 identicon

Gaman að þessari lesningu, línuritin sjást öll vel.

Víðir Örn Jónsson (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 17:54

4 identicon

Já skemmtilegar tölur frændi.

Er svolítið sammála Morra, eins og kemur fram er meira vitað um fæðuöflun á sumrin og þá er rjúpan ekki ofarlega á listanum. Ætli hlutfallið hækki þegar kemur fram á vetur samhliða því að kindur eru settar á hús og vaðfuglar yfirgefa landið. Bara pæling.

Hjalti (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sveinn Björnsson

Höfundur

Sveinn Björnsson
Sveinn Björnsson
Menntaður vélsmiður. Er refaskytta og áhugamaður um íslenska náttúru.

Spurt er

Eru refaveiðar mikilvægar?

Nýjustu myndir

  • selstaðarhliðar
  • gráhóll
  • nibbugreni
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 38029

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband