Mánudagur, 2. júlí 2012
Grenjavinnsla 2012
Við frændur reynum að skrá hjá okkur grenjavinnsluna á milli ára, þar sem að Hjalti er andskoti vel ritfær þá þykir mér upplagt að birta þetta hér fyrir almenningssjónir. Þetta á að vera bæði skemmtilegt og kanski smávegis fróðlegt. Vona að þið hafið gaman af.
Þetta er semsagt sagan af mér og Hjalta Guðmundssyni við grenjavinnslu árið 2012.
Mánudagur 11. júní.
Grenjavinnsla að hefjast hjá frændunum árið 2012. Venju samkvæmt var byrjað á burger í Ásbyrgi enda hefur það yfirleitt gefið góða raun. A.m.k. hefur það ekki þótt veita á gott að sleppa því. Deila má þó um hvort að frændur hafi yfir höfuð gott af þessu en það efni í annan pistil.
Ákveðið var að best væri að skoða Vatnshólinn og nágrenni hans fyrst enda margir búnir að sjá eða heyra um tófur á því svæði. Engin ummerki voru á Vatnshólnum og sökum vindáttar var ákveðið að geyma Hraunréttina. Þótti því best að fara vestur á Eyvindastaðaveg með viðkomu á Gráhól. Hóllinn er stór og mikill og mikið um holur á honum og Hjalti hljóp upp á hann til þess að kíkja í þær fjölmörgu holur sem eru þar. Þegar hann var að verða búinn að yfirfara holurnar kom hann auga á 2-3 holur sem voru mikið umgengnar. Ákváðu frændur að leggjast ekki sökum vinds og lítils undirbúnings, þ.e. vissu þeir ekki alveg hvar best væri að liggja við þetta,
og ákváðu þá að halda áfram að leita og stúdera Gráhólinn betur á meðan. Áfram var haldið á Eyvindastaðaveg og kíkt á Grenishólinn og Grenisholuna. Lítið að sjá þar svo stefnan tekin á Einarsgreni. Ekkert þar en þegar Sveinn var að laga merkið rauk upp tófa undan fótunum á honum. Mórautt dýr og grensmogið en gaf ekkert riffilfæri á sér enda erfitt að átta sig á því hvoru hefði brugðið meira, dýrinu eða Sveini. Eitt var víst að hún kærði sig lítið um að líta framan í kallinn aftur.
Ákveðið var því að geyma það að kíkja á Jarðbakkann sem er næsta greni sunnan við Einarsgreni og lá því leiðin næst á Hestakrókana. Var í hvorugu greninu þar og ekki heldur á Víðigreni, Hjartarholu eða Jafnagili. Þó var aðeins gamall skítur þar enda vinsælar vetrarholur.
Þriðjudagur 12. júní.
Farið af stað um hádegi og labbað á Hraunréttina frá Eyvindastaðavegi. Þó var talið ólíklegt að væri í því enda Hraunréttin afar stutt frá Gráhólnum sem fundist hafði í deginum áður. Töluvert lengra labb er á Hraunréttina frá Eyvindastaðavegi en þægilegri aðkoma svo þetta varð fyrir valinu. Þegar heim á grenið var komið fór Hjalti á undan með haglabyssu og þegar hann átti eftir 15 20 metra heim á grenið sá hann lítinn mórauðan hvolp í einum munnanum. Var því snúið við og Sveinn lagðist við grenið á stað sem frændur höfðu ákveðið að best væri að liggja.
Hjalti labbaði til baka í bílinn til að ná í bakpokana og þær byssur sem eftir urðu í bílnum. Þetta var um kl 14:00 og var Hjalti kominn til baka um 16:00. Þá var ákveðið að Sveinn myndi halda áfram að vakta grenið en Hjalti lá og horfði til suðurs enda mikið flæmi þar og voru frændur alveg óvarðir ef dýrin kæmu þaðan. Þó var það álit frænda að dýrin kæmu bæði að norðan eins og þau gerðu fyrir tveimur árum síðan.
Læðan kom svo heim um 19:00 og kallaði út hvolpa til að gefa þeim. Sveinn varð hinsvegar að bíða töluvert lengi eftir því að ná skoti enda sá hann læðuna aldrei nógu vel til þess að skjóta. Áttaði Sveinn sig þá á að staðsetningin væri ekki nógu góð en að lokum gaf læðan svo fær á sér og þurfti þá ekki að spyrja að viðbrögðum Sveins. Læðan því fallin og frændur hlupu saman að greninu vopnaðir haglabyssum og skutu 3 hvolpa. Sökum þess hve ungir þeir voru hefði jafnvel verið hægt að taka þá lifandi en það er gott að vera vitur eftir á. Eftir það var ákveðið að Hjalti færi inn í Hraunréttina á stað sem hann hafði legið tveimur árum áður og gefist vel. Gallinn við þann stað er hversu illa fer um skyttuna en kosturinn er sá að dýrin eiga að geta verið heima á greninu án þess að verða vör við skyttuna.
Það var tíðindalítið þangað til um 22:00 er Hjalti heyrir í rebbanum koma og gerir sig klárann. Þegar rebbi er kominn heim reynir hann að kalla hvolpana út en fær lítil viðbrögð. Einu viðbrögðin sem hann fékk voru frá Hjalta og þurfti ekki að spyrja að leikslokum.
Bæði dýrin dauð og ákveðið að halda heim á leið.
Fimmtudagur 14. júní
Farið var á Jarðbakkann, grenið sunnan við Einarsgreni, en þar var aðeins fiður og aðeins skítur en þó svolítið gamall. Lá því leiðin næst á Mundagreni þar sem enginn umgangur var. Þaðan labbaði Sveinn norður á Nibbugreni en Hjalti fór aftur í bílinn enda hefði það verið heilmikið labb með allan búnað ef þeir hefðu báðir farið á Nibbuna og þurft að labba svo til baka í bílinn. Hjalti var búinn bíða þónokkra stund í bílnum þegar hann fékk símtal frá Sveini þess efnis að aðeins umgangur væri á greninu og búið væri að grafa þar út. Hjalti labbaði þá til Sveins sem á meðan hafði stundaði skógarhögg enda hafði hann fundið góðan legustað í kjarri og þurfti aðeins að snyrta greinar í kring til þess að skotleiðin væri greið. Ákváðu frændur að þarna væri best að liggja þó svo að sýnið á grenið væri ekki með besta móti. Allt orðið klárt og klukkan um 16:00. Sveinn stóð vaktina fyrst um sinn en fékk hann svo Hjalta til að skipta við sig um 19:00 enda gott að skipta reglulega til að halda einbeitingu.
Um 20:00 barst hávært ánægjuvæl frá greninu og augljóst að þar var yrðlingur á ferð. Ástæða vælsins var sú að læðan var komin heim og biðu frændur svolitla stund til þess að átta sig á því hvort fleiri hvolpar væru þarna en þessi eini. Þegar útséð var með það var ákveðið að skjóta og náðust læðan og hvolpurinn bæði. Röltu frændur því næst heim á grenið og skoðuðu það vel enda höfðu þeir fengið á tilfinninguna þegar læðan kom heim að hvolpurinn væri aðeins einn á þessu greni, slík voru ánægjuköllin í honum. Mynd:Séð heim á Nibbugreni
Eftir nánari skoðun var staðfest að þarna var aðeins einn hvolpur enda umgangur ekki mikill á greninu og hvolpurinn orðinn stór. Var því talið líklegt að læðan hefði gotið í öðru greni en væri nýbúin að flytja þennan eina hvolp í þetta greni. Við uppskurð á læðunni komu í ljós 5 ný legör þannig að læðan ætti að eiga maka einhversstaðar og jafnvel 4 hvolpa, eitthvað sem verður að líta á seinna í sumar ef þetta finnst ekki við hefðbundna grenjaleit.
Þegar frændur voru búnir að fullvissa sig um að ekki væri meira í greninu var snúið heim á leið.
Föstudagur 15. júní Farið var á Hraunréttina til þess að sinna þeim hvolpum sem eftir voru. Gekk það ekki eins og ætlast var til svo frændur skutu æti handa hvolpunum og dreifðu fyrir utan grenið svo þeir yrðu öruggari með að koma út og éta þar. Var því næst haldið á Gráhólinn enda vitað að þar væri greni í ábúð. Þegar komið var þangað, c.a. 5-600 metra frá greni sást greinilega að annað dýrið sat heima á greninu og hvolpar voru úti að leik. Klukkan var farin að nálgast 16:00 og ákvörðun tekin um að Sveinn myndi reyna að læðast, frá bílnum, stóran hring óséður heim á grenið á meðan Hjalti sat í bílnum og fylgdist með dýrinu. Dýrið var ekki alveg sátt við að hafa bílinn þarna svo það gaf honum gaum og lagðist niður til að fylgjast með bílnum. Á meðan þessu stóð læddist Sveinn nær og nær og hafði dýrið augljóslega ekki hugmynd um ferðir Sveins. Þegar Sveinn var svo kominn nógu nálægt var aldrei neinn vafi um hvernig einvígið færi. Sveinn kom auga á dýrið og skaut hann læðuna þar sem hún lá, upptekin af því að fylgjast með bílnum.
Sveinn fór því næst að leita að svæði til að liggja við grenið á meðan Hjalti keyrði bílinn í hvarf og kom sér því næst til Sveins.
Vonlaust var að liggja á hólnum án þess að bera við loft og ákváðu frændur því að reyna að hlaða sér byrgi sem reis á methraða. Sennilega var það svo vel byggt að byggingarfulltrúi Norðurþings hefði veitt leyfi samstundis fyrir nýbyggingunni. Byrgið var í um 35 40 metra fjarlægð frá greninu. Mynd: byrgið við gráhólinn
Smá hæð var fyrir aftan holurnar sjálfar eða í um 70 metra fjarlægð frá legustað frænda. Þessi hæð var talin líklegur staður fyrir rebba að stoppa á. Um 23:00 kom rebbi að norðan og heim á grenið. Voru þá frændur nýbúnir að skipta en ekkert roslega þægilegt er að liggja í byrginu og þótti því kærkomið að geta skipt við hinn til þess að teygja úr löppum og öðru. Hjalti, sem þá var á vakt, var ekki nógu snöggur að grípa til haglabyssunnar og varð því að bíða á meðan rebbi athafnaði sig heima á greninu enda ekki ráðlegt að hreyfa sig svona stutt frá greni. Það var svo eins og þeir frændur höfðu gert ráð fyrir að rebbi hljóp frá greninu undan ágangi hvolpa sinna og stoppaði hann á hæðinni aftan við grenið og á þeim tíma hafði Hjalti náð að munda riffilinn hans Sveins og kom skoti á rebba þar sem hann stoppaði í um 70 metra færi. Á sama tíma skaut Sveinn einn yrðling með haglabyssunni hans Hjalta. Ákveðið var að gera ekki tilraun við hvolpana og láta þá alveg óáreitta og því næst haldið heim.
Laugardagurinn 16. júní.
Venju samkvæmt farið í byrgið til þess að snæða og því næst ráðist á Garðsheiðina enda hafði ekkert verið farið þangað. Byrjað var á því að kíkja á Skógarhæðirnar þar sem ekkert hafði gerst og labbaði Hjalti því næst á Vörðuhólinn en Sveinn fór á meðan á Austari Selstaðahlíðar. Í hvorugu greninu var umgangur og mættust því frændur í bílnum en Hjalti hljóp heim á Hryggjargreni og þar var ekkert að sjá. Fóru frændur því næst upp á Garðshálsinn og kíktu á Hellu, í Magnúsarhól og út á Hálsbrún en ekkert að sjá. Var því næst keyrt yfir á Garðsveginn og þar lentu frændur í rigningu. Óhagstæð vindátt varð til þess að þeir ákváðu að geyma Fjárborgina og fóru því heim á Þórarinsgreni þar sem aðeins umgangur var en ekki í ábúð. Sveinn rölti því til baka í bílinn en Hjalti fór norður á Vestari Selstaðahlíðar og þegar hann átti um 400 metra í grenið sér hann hvar dýr situr heima á greninu og a.m.k. 4 hvolpa úti að leik. Hann fer því til baka í bílinn og frændur ákveða að best sé að geyma það að leggjast við grenið því eldri og reyndari menn töldu best að liggja norðan og austan við það og hentaði því vindáttin illa. Þurfa þeir því frá að hverfa og ákveða að best sé að bíða eftir hagstæðari vindátt.
Var því farið á Gráhólinn þar sem gerð var tilraun til þess að kalla hvolpana út og náðust 2 lifandi (Sveinn kallaði þá út og greip þá) en einn var skotinn. Skildu frændur eftir æti á greninu til þess að sjá hvort fleiri hvolpar væru þar.
Sunnudagur 17. júní.
Mikið búið að gerast undanfarna daga og var því ákveðið að dagurinn yrði tekinn í það að sinna hvolpum. Hjalti fór með Jóhannes bróður sinn á Hraunréttina og heppnin var svo sannarlega með þeim þar sem hvolparnir, 2 talsins, voru úti að leik þegar þá bræður bar að garði. Voru þeir báðir skotnir og var því næst farið á Gráhólinn ásamt Sveini til þess að athuga hvort fleiri hvolpar væru þar. Ætið frá deginum áður var algjörlega ósnert og því álit manna að þarna væru ekki fleiri hvolpar.
Fimtudagur 21. júní.
Frændur búnir að taka frí mánu- , þriðju- og miðvikudag og því þótti ráðlegt að sinna því greninu þar sem dýrið hafði sést nokkrum dögum áður. Ekki var útlit fyrir hagstæða vindátt næstu daga og því voru góð ráð dýr. Töldu þeir frændur að hægt væri að liggja sunnan við grenið eftir miklar pælingar. Þeir voru komnir að greninu um klukkan 14:00 og fylgdust með því úr bíl ásamt því að ákveða hvar best væri að liggja við það. Sáu frændur álitlegan stað úr bílnum og töltu loks af stað. Fikra frændur sig því nær greninu og finna sér góðan legustað í um 120 140 metra færi frá greninu. Staðsetningin var góð enda skytturnar vel varðar og átti því lítið að bera á þeim. Allt klárt og klukkan um 15:00.
Sveinn tók fyrstu vaktina og var nú ekki búinn að eyða mikilli orku í það er hann sér læðuna koma út úr greninu. Hún teygir vel úr sér, og fikrar Sveinn sig í riffilinn á meðan. Læðan leggst því næst kylliflöt á þúfu svo ekki var hægt að koma skoti á hana. Hún var mjög róleg og því var ekkert sem lá á. Læðan lyfti hausnum af og til svona til þess að fylgjast með nánasta umhverfi og Sveinn beið rólegur eftir rétta tækifærinu. Var það svo þegar að hvolparnir ruddust út og hentu sér á læðuna að hún settist almennilega upp og fékk hún þá væna sendingu frá Sveini ásamt einum hvolpi sem ekki var nógu snöggur að forða sér inn.
Frændur skipta svo um vakt um 17:00 og var talið ráðlegast að eftir þetta yrði að vera við öllu búinn enda ekki vitað hver viðbrögð rebba yrðu þegar hann kæmi heim og sæi læðu sína og einn hvolp liggja dauð á greninu. Var það álit frænda að biðin yrði jafnvel ekki svo löng eftir rebba þar sem læðan hafði verið inni í greninu seinnipartinn, og var það eins og við manninn mælt því rebbi kom skokkandi heim á grenið um 19:00 og var honum ekki gefið neitt færi á því að líta í kringum sig og var hann skotinn um leið og hann stoppaði. Í ljós kom að bæði dýrin voru gömul, á að giska 4 6 ára. Var því næst farið heim á grenið og gerð tilraun til þess að kalla hvolpana út. Það var aðeins einn sem gaf færi á sér og var hann aflífaður samstundis. Fóru frændur því heim, vitandi að 2 hvolpar voru eftir í greninu enda búnir að sjá fjölda hvolpa tvisvar sinnum.
Föstudagur 22. júní.
Leit kláruð í Garðsheiði. Fóru frændur upp á Garðsháls og labbaði Hjalti á Dokkina, Frændann, Bensagreni og Stóragreni á meðan Sveinn tölti á Víðivelli og keyrði svo austur á Eyvindastaðaveg til að sækja Hjalta. Urðu þeir ekki varir við neinn umgang í þessum grenjum þó gamall skítur hafi verið á Víðivöllum.
Lá því leiðin næst á Garðsveginn þar sem kíkt var í Fjárborgina, greni sem hafði verið í ábúð síðustu 2 ár, en þar var ekkert að sjá. Enduðu frændur því á að kíkja á hvolpana frá deginum áður en ekki gerðu þeir vart við sig að þessu sinni.
Leit þar með lokið í Keldunes- og Garðsheiði 2012.
Sveinn fór svo 2 ferðir suður í heiði til þess að gera tilraun við hvolpana og náði hann einum hvolpi í hvorri ferð svo grenjavinnslunni lokið þetta árið.
Mynd:Dýrin af selstaðarhlíðum
Verður svo gerð tilraun til þess að leita að refnum á móti læðunni sem var á Nibbugreni þegar líða tekur á júlí og ef eitthvað gerist í þeim efnum er aldrei að vita nema að annar pistill verði ritaður.
F.h. frændanna,
Hjalti Guðmundsson.
Bloggar | Breytt 3.7.2012 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 11. maí 2012
Rannsóknir á íslenska refnum
Ég skrifaðist stundum á við Pál Hersteinsson, og aldrei stóð á svörum frá honum. Alveg sama hvað spurningarnar voru margar eða asnalega alltaf kom svar frá honum um hæl. Talaði við hann í síma 2 sinnum og var það gríðar skemmtileg símtöl. Þó soldið sé liðið frá þá votta ég aðstandendum samúð mína vegna fráfalls Páls.
En áframhald á þessum rannsóknum.....tja ég vona að það sé þá fólk með þokkalegan skilning á verkefninu. Það er ekki alltaf nóg að vera hámenntaður, reynsla af viðfangsefninu er einnig alveg gríðarlega mikilvæg. Gaman væri að vita hverjir það eru sem ætla að halda þessum rannsóknum áfram. Melrakkasetrið þarna fyrir vestan virðist fara að verða einhver þungamiðja gagnvart refamálum. Sbr útvarpsviðtöl ofl. Hefur vantað rödd frá Bjarmalandi að mínu mati í umræðuna.
Hvað um þetta þá er tófan núna friðuð nema fyrir ráðnum grenjaskyttum. Menn eru þessa dagana að verja vörp svo tófan klári þau ekki alveg um leið. Hef séð að einhverjum hafa gengið vel í því. Alveg ótrúlegt hvað fáar tófur eru snöggar að leggja heilu vörpin algerlega í spað.
kv, Sveinn
Refastofninn rannsakaður áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 9. desember 2011
Gagga einsog refur..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 15. nóvember 2011
Refurinn hinn náttúrulegi.
Sunnan áttir ríkjandi þessa dagana, sem er mikill og góður munur frá norðanáttunum sem hafa verið ríkjandi hér síðan í Maí. Enginn snjór og fjöll í óðaönn að auðnast. Rjúpan er komin hátt uppí fjöll í snjóinn, ef menn ætla að fara á rjúpnaveiðar á komandi helgi þá þarf sennilega að fara hátt upp.
Refirnir aftur á móti eru við sama heygarðshornið og eru enn hér niðurí byggð allt í kringum okkur, og svo eru að sjálfsögðu líka fullt af þeim uppi á heiðunum og uppí fjöllunum. En þeir lifa hinu ljúfa lífi í svona blíðum. Vappa um heiðar með nefið niður í jörð og finna sjálfsagt eitt og eitt egg sem hefur verið grafið frá nýliðnu sumri, eitt og eitt hræ rekast þeir vafalaust á, ber hafa þeir týnt uppí sig meðan þau voru, og mjög líklega hafa þeir náð að japla á músum. Hvolpar frá í sumar eru ekki orðnir færir í veiðum, þess vegna ganga oft ung dýr afar vel í æti á þessum tíma en samt minna þegar veðrið er svona gott. Sum dýrin eru farin að sækja að sjó, því fjörur landsins eru matarkista fyrir refinn. Þar má alltaf finna eitthvað gómsætt. Svo veiða refirnir sé fugla til matar, og eru þeir oft afar iðnir við þá iðju.Er minnkandi fuglalíf því til sönnunar.
Hefur mér heyrst að refaskyttur almennt á landinu séu ekki farnir á fullt í sínum vetrarveiðum. Frétti af einum sem fór með sína refaflautu fyrir um viku síðan þar sem að hann var búinn að verða var við ummerki eftir tófur, hann gaggaði og var ekki búinn að bíða lengi þegar að mórauð læða kom vappandi að honum og ekki var að spyrja að leikslokum.. tófan féll. Er ég búinn að heyra í tófum hér í sveit sem eru gaggandi, því er um að gera að fara þar sem grunur leikur á að sé tófu að finna og einfaldlega að sjá hvort ekki megi lokka þær til sín með gaggi. Hvolpar sérstalega frá sumrinu ættu að bregðast vel við og annaðhvort að koma á gaggið eða gagga á móti. Þá koma þeir oft upp um staðsetningu sína og má þá oft nálgast þá, og þá er það undir hverjum fyrir sig hvort eigi að mynda rebba eða skjóta hann. Ég hef þann háttinn á að skjóta fyrst og svo taka mynd hehehe ;)
Útungunarstöðin(þjóðgarðurinn) hér stendur alveg undir nafni, það er nóg af tófum hér í kringum þjóðgarðinn, gaman fyrir tófurnar en leiðinlegt fyrir fuglana og já og lömbin. En þetta er bara gangur náttúrunnar segja sumir og vilja einnig meina að þetta sé það náttúrulegasta sem til er. Og erum við svo heppinn hér á svæðinu að fá að njóta óspilltrar náttúrunnar þegar hún er uppá sitt besta. Með hverju sumrinu sem líður þá koma alltaf færri og færri lömb til baka úr heiðinni eftir sumarbeitina, gæsinni fækkar hér og varp hefur snarminnkað hér á svæðinu og á það við um allar þær varptegundir sem hafa verið hér. Rjúpum hefur fækkað það sama má nefna um öndina,lóuna,spóana osfrv. Reyndar er aukning á máfi,hröfnum og öðrum vargfugli. En einsog ég segi þá er þetta það náttúrulegasta sem við getum upplifað...... eða hvað?
Allavega til þess að þóknast hinni stóru Evrópu þá þarf ríkið að hætta greiðslum vegna refaveiða, og eru þeir búnir að stíga það skref. Næsta skref er að leggja niður grenjavinnslu. Veit ekki hvort refurinn muni verða alfriðaður á næstu árum en það er það sem gæti orðið. Ef ég á að segja alveg einsog er þá vona ég svo sannarlega ekki, höfum við dæmin hér á landi hvaða áhrif það mun hafa. Það er vel hægt að lifa í sátt og samlyndi við refinn og höfum við gert það síðan land byggðist, og leiðin er að halda stofnstærð refsins helst í eða undir 3000 refum. Þau ár sem var hér hvað mest af rjúpu þá var refastofninn undir 3000 dýrum. Árið 2009 var refastofninn talinn vera 10-12.000 dýr í dag er hann talsvert stærri, því veiðitölur hafa ekkert hækkað, heldur hafa þær lækkað árið 2009 var heildarveiði á refum 6745 dýr en árið 2010 var heildarveiði á refum 6379 dýr. Hvernig þetta endar er ekki gott að átta sig á, en hætt er við afar miklum breytingum á náttúrunni í sinni tærustu mynd.
Góðar stundir gott fólk og njótið náttúrunnar sem mest þið getið :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 1. nóvember 2011
refablogg
Sælt veri fólkið.
Sérstaklega þeir sem hafa kíkt hér inn þó ég hafi ekkert ritað hér lengi... ekkert auðvelt að losa ritstíflu hehehe :)
En hvað um það þá ganga refaveiðar bara svona líka heldur betur prýðilega vel þetta haustið. Eða um 10 stk. Það sem vekur furðu mína að í þeim hóp er eingöngu 1 hvolpur frá liðnu sumri, allt annað fullorðið og er jöfn skipting milli refa og læða.
Fundum við dýrbitið lamb hér nú rétt á dögunum, veit ekki hvort það dýr hafi verið eitt af þeim er ég hef fellt nú á síðustu 2 vikum, það má vera en ekkert öruggt í þeim efnum.
Annars eru það líka rjúpnaveiðar sem eru í gangi um þessar mundir og það er talsvert af rjúpu.
Svo er ætlunin að sækja kofa fljótlega sem á að notast við að liggja í við æti, ætlunin var að hafa díóðu ljós þar við, notast á við girðingar rafstöð til að halda ljósinu gangandi. En Steini hvernig gengur með að finna viðeigandi ljósabúnað til að nota við þetta?
gott í bili kv, Sveinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 22. júní 2011
Kalt sumar....kalt á greni..
Góðan daginn.
Þessi sumarbyrjun er búin að vera algjör hörmung veðurfarslega séð. Stanslaus norðan átt og kuldi. Við ströndina liggur svo þokubakkinn og kemur inn yfir landið á kvöldin. Hafa þessar aðstæður gert grenjavinnslu erfiða. Það er meira en að segja það að liggja úti í svona kulda, þokan stundum það þétt að það sést ekki einusinni heim á grenin þó legið sé í haglabyssufæri. En ég sjálfur hef ekki legið á greni þetta sumarið. Er búinn að leita langstærsta hluta míns svæðis hér í kelduhverfi, en ekkert greni fundið í ábúð. Í kelduhverfi á eftir að leita svæðið við hliðina á útungunarstöð(þjóðgarðurinn í jökulsárgljúfrum) okkar Norður Þingeyinga. En þeir hafa það enn að markmiði að sjá okkur fyrir nóg af ref. Tófurnar grenja sig inní garðinum og þegar líður á fram á haustið þá koma þær oft trítlandi út í ætisleit. Svo sá ég hér í riti frá þjóðgarðinum(útungunarstöðinni) sem sent var á alla bæi hér að þeir ætla svo að fá Pál Hersteinsson hingað í haust til að halda fyrirlestur um refinn. Það verður áhugavert og um að gera fyrir áhugasama að mæta á það. Ég var einmitt nú í vikunni að fá frá Páli aldursgreiningu á 3 fullorðnum tófum frá í fyrra sem ég náði við gren. En það getur verið gaman og ekki síður gagnlegt að fá hinar ýmsu upplýsingar um dýrin. T.d. voru þessi dýr öll í eldri kanntinum eða 2 þeirra 6 ára og eitt 5 ára. Tel ég að þessi vinna Páls sé af hinu góða. Hann hefur safnað upplýsingum um refinn síðan 1979. En ég er þeirrar skoðunar að það hljóti að vera til framdráttar að vita sem mest um refina. Ástand þeirra getur sagt manni mikið. Páll segir að hugsanlega sé refastofninn enn að stækka. Kemur það ekki á óvart og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála nú þegar að ríkið er hætt að taka þátt í kostnaði við að halda fjölgun refsins í skefjum. Eða má kanski þá segja núna að ríkið taki þátt í að efla og stækka refastofninn? Með að hætta fjárframlagi við veiðarnar og með því að stækka friðlöndin fyrir refinn?? Maður spyr sig allavega :) Maður vonar bara að þetta hafi ekki afgerandi áhrif á fuglaflóru landsins en ég óttast það.
En allavega þið sem komið hér inn lesið þetta, vona að þið hafið gaman af. Ekki er nú verra ef að þið vilduð eitthvað tjá ykkur. Commentin eru opin fyrir alla og endilega nýta ykkur það. Svo megið þið skrifa í gestabókina, það væri vel þegið :)
Gott í bili
Kv, Sveinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 6. maí 2011
Vorið er tíminn
Vorið alltaf jafn frábær tími.
Það er alltaf jafn frábært að vera þeirrar gæfu aðnjótandi að vera útí sveit á vorin. Allir fuglarnir að verða mættir á svæðið, sumir í óðaönn að undirbúa varp og enn aðrir orpnir. Alltaf jafn gaman að fylgjast með gróðrinum taka við sér og grænka. Nú er ég kominn með reksturinn á lífræna fjárbúinu í Árdal og núna sér maður um sauðburð, plægingu á nýræktum og sáningu í þau, svo má ekki gleyma skítmokstrinum. Svo síðast en ekki síst þá er það girðingarviðhaldið. Allt eru þetta afar skemmtileg störf og við flest þeirra þá fylgir þessu mikil útivera.
En þrátt fyrir þetta þá er maður að sjálfsögðu með hugann við tófurnar. Frá og með 1. mai þá má engin skjóta tófur nema ráðnar grenjaskyttur. En oft freistar það marga að plaffa á þær núna því þær eru svo auðfundnar þar sem er mikið af fuglum. Núna ættu lang flestar læðurnar að vera gotnar eða bara rétt við það að gjóta, miðað við stærð á hvolpum hjá mér um 10. júni síðastliðinn ár að þá eru þær gotnar. Þannig að gera má ráð fyrir því að þær tófur sem sjást á þessum árstíma séu annaðhvort refir(steggir) eða gelddýr (geta verið hvortveggja refir eða læður). Að mínu mati er það lang líklegast gelddýr sem eru á fullu í ætissöfnun núna. Refirnir fara reyndar með fæðu heim undir gren fyrir læðuna á þessum tíma og skilja það eftir námunda við grenið eða grafa það rétt hjá. Því læðan hefur ekki tök á að ná sér í fæðu meðan að hvolparnir eru mjög ungir. Ég væri ekki ekki hissa þó að refirnir héldu sig oft ekkert svo langt frá greninu þar sem að læðan þeirra liggur inni. En svo þegar hvolparnir stækka þá verða bæði dýrin afar öflug í að veiða og koma með heim. Þegar hvolparnir eru að verða 4 vikna þá eru oftast bæði dýrin farin að koma með fæðu heim.
Þannig að þegar skotnar eru tófur við æðarvörp á þessum tíma þá er ekki verið að skjóta læður frá litlum hvolpum, í versta falli er verið að skjóta refinn af greninu, læðan kemst af ein en vissulega verður búskapurinn mun erfiðari.
Að lokum, ég hélt nú að fleiri hefðu skoðun á ferðaþjónustu tengri veiði á refum.... en greinilega ekki. En ég verð með þannig ferðir í boði eftir 1 ágúst, þá verður farið með flautuna og reynt að gagga til sín tófurnar J
Kv, Sveinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Laugardagur, 23. apríl 2011
Viltu komast í grenjavinnslu?
Sælt veri fólkið.
Oft kemur upp sú umræða um hvort hægt sé að selja mönnum veiðileyfi á refaveiðar, og þá hvort það séu einhverjir sem langar að greiða fyrir að fá að fara með mönnum á greni. Hvað haldið þið kæru lesendur?
Ég sé fyrir mér að þetta yrði þannig að áfram verði ráðnir menn til grenjavinnslu, en þeim væri gefið svigrúm að mega taka með sér gestaskyttur. Greiðsla til grenjaskyttna frá sveitarfélagi væri þá föst krónutala á dýr, og ráðna skyttan væri með alla ábyrgð á því að grenið verði fullunnið. Þar sem að þetta er í raun og veru vargeyðsla þá finnst mér ekki úr vegi að sveitarfélagið greiði fyrir hvert unnið dýr áfram þó að grenjaskyttur skröpuðu fáeinar aukakrónur við að taka með sér menn sem greiða fyrir að fá að fara með. Líklegt er að þeir sem myndu koma í þetta þyrftu að kaupa sér gistingu og eitthvað matakyns og mundi þá sveitarfélagið hljóta góðs af því á þann veginn.
En þetta er allt útfærslu atriði. Gallinn við þessa veiði er kanski sá að ekki fæst ætt kjöt uppúr þessu. En þá fer maður að spá í silungsveiðinni, þar er mesta sportið að fara í veiða/sleppa ár. Ekki eru þeir þá að veiða í matinn. Þannig að afhverju ætti ekki að vera áhugi hjá mönnum að komast í þessa veiði?
Svo má einnig gera þetta með vetrarveiðina.
En gaman væri að fá skoðanir hjá sem flestum hér í commentin að neðan. Hvort sem menn hafi íhugað að fara þessa leið , eða hvort menn hafi áhuga á að komast í svona veiði.
Svo síðast en ekki síst hafi einhver reynt þetta eða skoðað væri gaman að heyra frá þeim.
Kv, Sveinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 3. apríl 2011
Besta veiðiaðferðin?
Hvað ætli sé besta veiðiaðferðin við að veiða tófur?
Hingað til hafa mest verið stundaðar 2 aðferðir, þ.e. grenjavinnsla að sumri til og svo borið út æti að vetri og legið við þegar tófan byrjar að koma í ætið til að fá sér að borða. Báðar þessar aðferðir eru góðar og hafa skilað góðum árangri.
Að mínu mati þá er grenjavinnslan allra besta aðferðin við að halda fjölgun tófunar í skefjum, en hún getur reyndar alveg snúist í höndunum á mönnum. Við þessa aðferð þurfa menn að vita nákvamlega hvernig á að bera sig að við greni, bæði til að dýrin styggist ekki og svo að hvolparnir drepist ekki inní grenjunum vegna aulagangs veiðimannsins. Ég hef alltaf haft það að leiðarljósi að bera virðingu fyrir bráðinni í þessu tilfelli refsins. Refurinn er afar klókur að bjarga sér og sé hann búinn að lenda í manninum áður t.d. hafi skot geigað sem skotið var í átt að refnum þá gleymir hann því aldrei og breytir hegðun sinni í kjölfarið til að forðast að lenda í návígi við mannin. Gott er að hafa að leiðarljósi þegar glíma á við ref að hugsa sér að hver og einn refur sé afar styggur og erfiður viðureignar. T.d. þegar gengið er að greninu til að leita í því þ.e. gá hvort að tófa sé búin að gjóta þar. Þá þarf að haga gönguleið sinni að ekki hljótist skaði af þurfi að leggjast á grenið. Í fyrsta lagi má auðvitað vindurinn ekki standa af veiðimanni og heimá grenið, í öðru lagi er ekki gott að ganga þar sem að er talið líklegt að tófan komi heim á grenið(má oft lesa það úr landslaginu). Í þriðja lagi að hugsa um leiðina sem gengið er til að ef þarf að leggjast á grenið að veiðimaðurinn geti séð gönguleiðina sína þaðan sem hann liggur.Í fjórða lagi þá þarf að gefa því góðan gaum hvort að fullorðið dýr sé á verði eða sé við grenið. Í fimmta lagi svo að sjálfsögðu að láta ekki bera of mikið á sér, þá hvorki sjáanlega eða með hávaða.
Þegar lagst er við grenið má alls ekki leggjast þannig að veiðimaðurinn beri við loft. Sé notaður riffill getur verið gott að hafa góða skotlínu þangað sem vindur stendur af veiðimanni, ef að dýr kemur í vindlínu. Þegar legið er við grenið er best að liggja alveg klár að skjóta svo það þurfi ekkert að róta sér þegar að fullorðið dýr kemur heim, þá að mínu viti skal taka fyrsta góða séns sem býðst á dýrið þá er best að skjóta á hliðina á dýrinu það er talsvert stærri flötur heldur en að þurfa að skjóta framaná dýrið. Það er misjafnt á milli manna hvort þeir láti dýrin liggja eftir að þau hafa verið skotin eða þau sótt heim á grenið. Ég hef þá reglu að sjái ég á dýrið þar sem að það liggur þá leyfi ég því að liggja ef ég sé ekki á dýrið þá sæki ég það. Svo er misjafnt hvenær menn byrja að skjóta niður yrðlinga, sumir gera það bara strax og komið er á grenið en ég hef þá reglu að ná að minnsta kosti læðunni áður en skotið er á yrðlinga. Oft má ná á hvolpana skoti um leið og skotið er dýr því þeir koma oftast út til að taka á móti dýrunum.Ekki má yfirgefa grenið fyrr en að bæði fullorðnu dýrin eru unnin, og best er að ná að fullvinna grenið á sem skemmstum tíma. Þeir allra bestu fara ekki frá greninu fyrr en að það er fullunnið. En stundum kemur babb í bátinn og að kanski annað fullorðna dýrið verði veiðimannsins vart, þá þarf oft að beita ýmsum ráðum til að reyna að ná því.
Sannir veiðimenn bera virðingu fyrir bráð sinni og haga verkum sínum samkvæmt því. Undir engum kringumstæðum er í lagi að valda dýrunum óþarfa kvala.
Þegar borið er út fyrir ref að vetri þarf að hafa eitt fyrst og fremst í huga og það er: Ekki hafa of stutt á milli ætisstaða, ef að loftlínan er ekki að minnsta kosti 10km þá þarf ekki að ræða það frekar það er of stutt.Þetta er að mínu mati algjör lágmarks fjarðlægð á milli ætisstaða.
Svo má nefna fleiri aðferðir sem eru afar góðar á öðrum tímum, þær eru til dæmis: Elta slóð refsins í föli, gagga (með flautu eða eigin hljóðfærum) refi til sín á víðavangi, fylgjast með slóðum refanna og liggja fyrir þeim ef þeir fara ýtrekað um sama staðinn sem þeir gera oft kvöld eftir kvöld, svo má oft liggja fyrir þeim í fjörum landsins því þeir ganga mikið í fjörurnar í ætisleit.
Góðar stundir og góða veiði
kv, Sveinn
Bloggar | Breytt 4.4.2011 kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 10. mars 2011
Ekki hættur
Sælt verið fólkið, og afsakið að ég hafi ekkert ritað hér í 3 mánuði. Er búinn að vera í smá refa pásu, hefi hvorki skotið né skrifað um tófur, hef þó aðeins rætt þau mál vil félaga mína. En nú fer maður að sinna þessu aftur bæði veiðum og blogginu ;)
Hef óvenju fáar veiðisögur heyrt þennan veturinn, margir að veiða lítið sem ekkert þó eru nokkrir sem eru að taka slatta. Ef einhver sem hér þetta les hefur frá einhverri veiði að segja þá má hinn sami gjöra það :)
Svo vonandi fara svörin frá Páli að detta hér inn.
gott í bili kveðja Sveinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sveinn Björnsson
Tenglar
Videó
- Mórauður refur skotinn við æti Legið fyrir hinum íslenska ref
- Rauðrefur kemur á flautu Hér má sjá svía kalla til sín rauðref
- Tófan, myndband-Eggjaþjófurinn Smá video af tófunni að afla sér fæðu
- Tófan að ná sér í gæsarunga Tófunni þykja ungar góðir
- Tófur að sumarlagi á svalbarði Hvolpar á ferð á Svalbarði
- Refaveiðar með Örnum í Mongólíu Mongólískir veiðimenn halda uppi ævaforni hefð
Tenglar á Tófusíður
- Bjarmaland Heimasíða Bjarmalands, félag atvinnuveiðimanna á ref og mink
- Melrakkasetur Íslands Fræðasetur sem er helgað íslenska refnum, kíkið á þetta fullt af myndum og mikið af upplýsingum.
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar