Refurinn og minkurinn

 

Góðan dag

Hvor er meiri skaðvaldur refurinn eða minkurinn??

Í fyrsta lagi þá er minkurinn innflutt dýr og eru flestir sammála um að hann eigi ekki heima í íslenskri náttúru, og er það meira segja þannig að UST hefur verið með átak í gangi gagnvart minkunum og ber einfaldlega yfirskriftina "útrýmum mink úr íslenskri nátttúru"  Og er ég algjörlega sammála þessari  skoðun að honum ætti að útrýma úr íslenskri náttúru. Þannig er að minkurinn er gríðarlegur skaðvaldur í íslenskri náttúru hann drepur sér hreinlega til skemmtunar en ekki eingöngu til matar einsog flestar aðrar dýrategundir. Minkurinn virðist vera ótrúlega góður að aðlagast aðstæðum hér og erfitt er að hemja útbreiðslu hans, en skaðann sem hann hefur valdið hér eða mun gera í náinni framtíð treysti ég mér enganveginn að segja til um hversu mikill hann er.  En get þó sagt það að skaðinn er mikill, má þar nefna að keldusvín er t.d. horfið úr íslensku fuglaflórunni þó það megi ekki kenna minknum alfarið um það en að mínu mati er hans hlutur meiri en hin ástæðan sem hefur verið nefnd á þessu samhengi og það er  framræslu votlendis, en afhverju hverfa þá einnig keldusvínin þar sem ekki var ræst fram en þar var minkur??  Og treysti mér ekki að svo stöddu að nefna áætlaða stofnstærð á minknum, annars kom comment hér við fyrri færslu frá Svan í Dalsmynni um að hann væri talin vera 12-20.000 dýr ( hugsanlega miku stærri) og látum við þær tölur bara standa að svo stöddu.  Annars er ég ekki mjög fróður um minkinn en hef verið að kynna mér hann meir og meir undanfarið og stefni á að bæta minka veiði við hjá mér fljótlega.

En til glöggvunar þá set ég hér inn tengil inná síðu íslenska vísindavefsins þar sem er spurt um minkinn og hugsanlegar afleiðingar af hans völdum og vil ég benda mönnum á að lesa þetta til að fá skýrari mynd af þessu.

http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=3695

 

En tófan getur verið mikill skaðvaldur og er fljót að hreinsa upp unga, egg og fugla. Þegar þrengir að  þá ræðst hún á búfénað sér til matar og má þar nefna lömb. Er allavega eitt tilvik komið upp á þessu ári þar sem tófan náði sér í lömb skammt frá bæ einum við varmahlíð, refurinn einfaldlega fór inní eitt burðarhólfið skammt fyrir ofan bæinn og náði sér í lömb.   En við höfum haldið uppi skipulögðum veiðum á tófunni í langan tíma og meðan að svo er þá tel ég að skaðinn af tófunni sé ekki svo mikill þar sem að veiðunum er sinnt að iðjusemi og áhuga. En þar sem að veiðin er í undanhaldi þá eru áhrifin fljót að koma í ljós.  Og best er að ræða við fólk sem þekkir það af eigin raun, má þar nefna hornstrandar friðlandið, þar ber öllum saman um sem til þekkja að fuglinum fækkar jafnt og þétt þar sem að tófan fær að vera óáreitt.  Á þessum friðlöndum sem eru nú töluvert fleiri en hornstrandar friðlandið, er það sama sagan refafjöldinn eykst gríðarlega, get ég einnig nefnt vatnajökulþjóðgarð, þar sem að ég þekki það nú af eigin raun því mitt grenja svæði liggur að honum að hluta til. Friðsvæðin verða nokkurskonar uppeldisstöðvar og gera því sveitarfélögum afar erfitt um vik að halda refafjölda niðri.  Nýjasta dæmið í Ásbyrgi er það að um daginn var tófuskytta ein að þvo bílinn sinn á þvottaplaninu í Ásbyrgi að kvöldlagi, þar sem að veður var með eindæmum gott og oft í svona blíðviðrum verðu afar hljóðbært þarna hjá okkur. Þegar skyttan var búinn að þvo bílinn og ætlar að fara að týja sig heim að þá sá hann refaflautuna sína liggja í aftursætinu, dettur honum í hug að láta eitt gagg fara útí loftið þar sem að veður var svona gott. Leið nú ekki löng stund uns að það kemur tófa gaggandi á móti honum, ekki leist henni þó á þvottaplanið heldur hljóp nokkra hringi  um golf völlinn og var að velta vöngum yfir þessu gaggi, en leist svo ekkert á það heldur fór dáldinn sveig vestur fyrir búðina og hélt á vit ævintýranna við aðra tófu sem var norðan við verslunina sem hafði einnig blandað sér ínní þessar samræður.  Svo þegar skyttan ætlaði að fara að dóla heim þá lét sú 3 heyra í sér lengra suður með Ásbyrgisbotninum, þá var skyttunni nóg um og sendi undirrituðum sms um að hvort ég gerði mér grein fyrir hvað væri orðið mikið af tófu á svæðinu.

Einnig kom fram í comment hjá Svani hér á undan að áætlaður fjöldi refa á Íslandi sé á bilinu 10-12.000 dýr og kemur það heim og saman við grein Páls Hersteinssonar í nýjustu veiðihandbókinni um Íslenska refinn. Þar eru einnig helstu veiðitölur á refum þar kemur í ljós að vetrarveidd dýr á árinu 2009 eru  3540.  Grendýr (fullorðin dýr) 1121. og yrðlingar 2084. er þetta samtals 6745 dýr sem veidd voru á árinu 2009.  Við skoðun á þessum tölum má sjá með óhyggjandi hætti hvað veiðarnar eru að skila miklu hlutverki.

Þarna má einnig sjá yfirlit yfir fjölda veiddra minka á árinu 2009 og eru þeir samtals: 4700.

Jæja gott í bili, endilega commenta.

kv, Sveinn

 

 


Uppáhalds fugl tófunnar

Sælt veri fólkið.

Jæja videoið hjá þeim frændum hefur vakið mikla lukku og vonandi verður meira af þessu.

 

En hver er uppáhalds fugl tófunnar? þetta er spurning sem kom fram hér í commenti. Þessu er kanski ekki alveg auðsvarað. Ætli það sé ekki fugl sem er hér allt árið og þá kemur nú rjúpan sterk inn. Og í farfugla flórunni þá er það gæsin. En má kanski nefna í því sambandi að þær veiða kanski meira af gæsarungum en fullorðnum gæsum. En svo má kanski bæta við skógarþresti, alla vega á mínu svæði í heiðunum í kelduhverfi þá koma þær voða mikið heim á grenið með skógarþresti og unga þeirra.  Svo getur þetta verið breytilegt eftir landsvæðum á öðru svæði er þessu kanski öðrvísi háttað, sjálfsagt má setja fýlinn í fyrsta sæti sumstaðar. Væri nú gaman ef einhver sem þetta les er með aðra reynslu eða vitneskju þá má endilega commenta um það.  En svo ber að nefna eggin, tófan safnar alveg gríðarlegu magni af eggjum, ÖLL egg sem hún finnur tekur hún, oftast fer hún með þau og grefur þau, og geymir sér framá vetur.  Held að öll egg séu í uppáhaldi hjá henni.

 En alla vega þá er þetta svona í grófum dráttum, og í framhaldi af þessu þá má samt bæta við að tófan er mikill tækifærisinni og hún veiðir/étur allt sem hún kemst í, ef að t.d. gæsinni myndi fækka verulega af einhverjum ástæðum þá myndi þetta breytast fljótt hjá henni þá kæmi eitthvað annað í staðinn fyrir það, tófan er ekki háð neinni sérstakri fuglategund eða einhverju ákveðnu æti. Það er svolítið frábrugðið öðrum dýrastofnum  annarstaðar. Það er þessi gríðarlegi hæfileiki til að aðlagast breyttum aðstæðum, það er t.d. vegna þessa sem menn setja spurningarmerki við friðun tófunar, því tófan getur í raun útrýmt ákveðinni fuglategund eða fuglategundum án þess að það mundi bitna á henni sjálfri. Veit ekki við hvaða aðra dýrastofna er hægt að líkja tófunni við gagnvart þessari gífulegri aðlögunar hæfni.

 

Alla vega ef þið hafið eitthvað til málanna að leggja endilega commenta  á þetta, og eða ef það vakna upp fleiri spurninar þá endilega slá þeim fram, ekki það að ég viti endilega svarið heldur væri gaman að skapa smá umræðu um þetta.  Smile

kv, Sveinn


Video af ref skotinn

Það er alltaf erfitt að reyna að miðla með skrifum þeirri upplifun sem maður fær við að liggja úti í náttúrunni, og upplifa hana beint í æð. Upplifa hvern fugl fyrir sig upplifa hverja tófu fyrir sig, upplifa sólina koma upp þegar nýr dagur er að hefja sinn gang.  Sérstaklega ef lesandinn hefur litla reynslu af því sjálfur. En það sem kanski hjálpar til við það er að taka uppá á video það sem fyrir augu manns ber, og það hljóð sem skilar sér inná það,  en það er oft mun erfiðara að taka upp.   Hver árstími hefur sinn sjarma, þegar maður liggur úti á veturna í kulda og myrkri þá er það frostið, myrkrið og hin óendanlega þögn. Þegar kemur framá vorið þá er það sérstaklega minnistætt fyrir hvern þann sem upplifir að vera kominn út í myrkri og verða vitni af þegar sólin kemur upp og í kjölfarið fara fuglarnir að taka við sér, syngja og tralla.  Á sumrin er það lífið sem er allan sólahringinn, fuglar í mónum, gæsir að fljúga yfir mávurinn gargandi í fjöruborðinu.  Á sumarnóttum kemur ró yfir þetta yfir hánóttina en fuglarnir eru alltaf á varðbergi, ef maður gengur um þá eru alltaf fuglar á sveimi í kring og láta vita að þarna sé nú einhver á ferðinni. Svo þegar maður er búinn að koma sér fyrir á milli þúfna eða bakvið barð, er jafnvel að bíða eftir tófu, þá heyrir maður það alltaf á fuglinum eða sér það á fuglinum lengra frá ef það kemur tófa á svæðið. Fuglarnir hafa sitt viðbragskerfi. Haustin hafa sinn sjarma þegar daginn er farinn að stytta,  lauf og gras að sölna fuglarnir að týnast burt hver á fætur öðrum. 

En það það var einmitt einn fagran vormorgun fyrr í þessum mánuði að þeir frændur mínir og félagar Óli á fjöllum og Ómar frá Efri Hólum fóru vel klæddir, og lögðust í gamalt bílræ sem er  notað sem skothús. Var Óli búinn að sjá að það var tófa að ganga í ætið og hefur það oft verið umræðuefni hjá okkur að gaman væri að ná þessu á video. Eftir dálitlar vangaveltur var ákveðið að þennan morgun skildi þetta nú gert, þurfti að hugsa öll smáatriði vel, því ekkert má útafbregða annars verður tófan vör við hættu  og lætur sig hverfa hið snarasta. En þar sem að Óli er nú mörgum hnútum kunnugur þegar kemur að tófuveiðum þá að sjálfsögðu sá hann þetta allt saman fyrir og úr varð þetta líka flotta video hjá honum. Set ég tengil hér vinstra megin til hliðar á síðunni (tengillinn: mórauður refur skotinn í æti)endilega smellið á það og horfið á þetta, ef þið hækkið aðeins hljóðið að þá heyrast smá smellir annað slagið og tófan lítur upp, en þetta er bara örlítið snark í sætinu þegar skotmaður er að fínesera miðið, þessi tófa kippti sér lítið uppvið það en stygg tófa hefði sennilega getað hlaupið í burtu bara við að heyra einn svona smá smell.  En hvað um það þá er þetta frábært að geta séð þetta svona á videoi og vonandi er þetta bara byrjunin á skemmtilegum video klippum.

Kv, Sveinn

 

 


sumarið er komið

Gleðilegt sumar Smile

Það er alltaf jafn hressandi þegar sól fer að hækka á lofti, gæsir komnar  ásamt öðrum farfuglum.  Nú fer maður að liggja fyrir tófunni þar sem eru mikil og góð fuglasvæði, sækja þær oft í það uppúr þessum tíma, getur verið gott að ná þeim áður en þær fara að týna eggin undan fuglunum. En það á nú bara við ákveðnar fuglategundir við sumar er efiðara við að eiga. Hefur þessi mánuður verið óhagstæður fyrir mig þ.e. lítið sem ekkert komist á refaveiðar, hefur verið svo mikið að gera í vinnu og á heimilinu. Því hef ég afar lítið brúkað flautuna, fer vonandi eina til tvær ferðir um helgina og svo verður riffilinn sendur suður til beddunar og setja kvikasilfur í afturskepti. Á að reyna að mýkja hann aðeins fyrir komandi átök í grenjaveiðinni Grin   

Nú eru flestar tófur búnar að finna sér sitt greni og styttist í got hjá þeim ca svona 2 vikur í það. Refirnir eru duglegir að fara um og merkja sér sín landamæri á óðulum sínum. Óðulin geta verið afar misjafnlega stór, fer eftir fæðuframboði og fjölda dýra. Tófan er svo gríðarlega aðlögunarhæf að þær geta minnkað eða stækkað sín óðul eftir því sem við á. Eru til dæmi þess að ekki séu nema nokkurhundruð metrar á milli grenja. Þar sem er nóg af að éta og þær hafa það gott þá minnka þær einfaldlega sín óðul og svo stækka  þau þegar tófum fækkar.

En hvað um það, ég setti víst inná aðra síðu hér um daginn eitthvert algert bull, þar sem menn voru að gera litlar vísur. En einhverstaðar þarf að byrja og mun ég setja hér smá vísur inn en þú lesandi góður þarft ekki að taka þær of hátíðlegar þetta er nú bara gert til skemmtunar og þá sérstaklega fyrir undirritaðan. Joyful

 

Mikil er sú mæta list

melrakka við að glíma

er það oft erfið vist

einn að liggja í óratíma

 

kuldinn manni kennir eitt

klæða skal sig afar mikið

þolinmæði eigi þrjóta neitt

þá kemur tófa fyrir vikið

 

núna skal tófan nást

nærri ekkert má sepa

svo er það einna skást

að skjóta til að drepa

 

Kv, Sveinn


Útungunarstöðvar

Nú er komin norðan átt aftur, eftir nokkra góða daga með sunnan átt og hlýindum. Manni leiðist norðan átt með snjókomu  þegar maður er búinn að fá snefil af hinu. En nýtti að sjálfsögðu tækifærið og fór á ferðina til að skoða slóðir, kom mér á óvart hvað er mikið á tófum á ferðinni, rakst svo á eitt refa par sem var eitthvað að dúlla sér bakvið stóran stein voru þær ekki ánægðar með að vera truflaðar svo þær fengu bara að fara sína leið.  Þrátt fyrir talsverða vetrarveiði þá er mikið af tófum, sem bendir til þess að alveg ótrúlega margar komst á legg yfir sumarið svo virðist vera gnægð matar fyrir þær annars lifðu þær ekki veturinn. Þær auðvitað safna sér forða yfir sumarið, svo er fjaran oft mikil matarkista og svo er alltaf eitthvað sem fellur til t.d. útburður ef honum er ekkert sinnt þá er bara verið að aðstoða tófurnar við að lifa veturinn af.

Vegna þessarar aukningar á tófu þá hefur t.d. fuglalíf þar sem ég þekki til snar breyst eða öllu heldur varpstöðvar. Á tiltölulega afmörkuðu svæði í Kelduhverfi þar sem að ég var vanur að ná mér í egg í soðið bæði gæsar og kríu egg að þá undanfarin 3 ár hef ég ekkert egg fundið, ætli ég nenni nokkuð að leita þar nú í vor. En á þessu svæði er mikil aukning á tófu þó svo ég skjóti mjög margar tófur þarna þá er það bara ekki nóg. T.d. bara það friðsvæði sem er þarna þá er ég að meina inní þjógarðinum þá megum við ekki vinna grenin þar og mér virðist það vera orðin býsna öflug útungarstöð fyrir refina.  Svo kosturinn í kelduhverfi er sá að þar hafa dugmiklir bræður útrýmt minnknum þar og er það eftirtektaverkt, er það algjörlega án þess að pappírspési í rvk hafi skipt sér af !! já í sum eyri hljómar það ótrúlega ;)  En þurfi ég að lesa aðra skýrslu um hrun að þá vona ég að það verði um hrun minnks í íslenskri náttúru að mínu mati má hann hverfa alfarið.

En refururinn er íslenskur og á að vera hér að sjálfsögðu, en við verðum að halda honum í skefjum með skipulögðum veiðum. En því miður þá hafa þingmenn ekki áhuga á þessu, telst sennilega ekki atkvæðavænt málefni. Þess vegna er skipulagða veiðin í undanhaldi, sum sveitarfélög hætt að standa í þessu eða sum farin að setja kvóta á veiðarnar þ.e. borga bara fyrir fyrirfram ákveðið margar tófur. Þar sem að tófuveiði er gríðarlega tímafrek og ógerleg fyrir viðvaninga þá þarf að borga mönnum fyrir þetta. Og þar á ríkið að vera fremst í flokki, þá þurfa öll sveitarfélög að standa sig í þessu , það þarf að hækka verðlaunin fyrir skottið, það er búið að vera sama ríkisleiðbeinandi verð í um 20 ár. Svo á að aflétta friðun á ref á mörgum af þeim svæðum sem nú eru griðlönd fyrir refinn, á afar mörgum stöðum þá er mun betra að hafa meira af fugli en refum. Það er t.d. mun auðseljanlegara fyrir ferðamenn, t.d. bara vegna þess að fuglinn er á vappi/flögri  yfir daginn en tófan mun frekar yfir nóttina.  Fugla skoðun/áhugi hefur verið að aukast gríðarlega og er mikil aukning í þannig ferðamönnum sem koma hingað til lands.  Svo má horfa á það þannig að því erfiðara sem er að finna eða sjá tófu þá er það þeim mun merkilegra Wink    En að sjálfsögðu kemur fleira til vegna þessarar aukningar á refnum  t.d. þetta sem ég minntist á hér með útburðinn að sennilega er það orðið nokkuð algengt að menn ætla nú laglega að skjóta tófu og bera út en hafa sig svo ekki í að liggja yfir eða hafa ekki kunnáttu til að ná árangri, og eru þá bara að fóðra refina.  Nefni ég líka lúpínu hef heyrt af því sérstaklega af suðurlandinu þar sem tófan virðist grenja sig í miðjum lúpínu ökrum að það sé afar erfitt að eiga við hana í lúpínunni. Nefni líka snjóléttari vetur, bæði vegna fæðuframboðs og svo fleiri greni orðinn þurr og klár til að leggja í þau. þá jafnvel óþekkt greni.  

Mikil er vöntunin á góðum veiðistjóra, og svo common sense hugsun þarna á veiðisviði ust.  Næst þegar ég tala þangað þá ætla ég pottþétt að hljóðrita símtalið, því það er oft svo hlægileg svör sem maður fær Grin

Jæja gott í bili

kv, Sveinn


Móri fallinn

Loksins þá kom gott veður, og það fyrsta sem ég hugssaði um var að fara og liggja fyrir móra. Þar sem að hann var búinn að leika á mig einusinni og láta kvikmynda sig þá fannst mér nóg um.

Einsog og venjulega þá fer maður að tína útí bíl nauðsynlegan búnað þ.e. hlý föt, nesti, vopn, skotfæri og í þessu tilfelli hreyfiskynjara. Ég ákvað að hann skyldi ekki fá að leika á mig aftur því fór ég vel græjaður.  Hreyfiskynjarinn er settur við ætið og svo er ég með fjarstýringu á mér og ef það verður hreyfing þá fer fjarstýringin að titra alveg magnað apparat. Tók ég með mér riffilinn Tikka super varmint 300 win mag og haglabyssuna winchester pumpa og 3" skot í hana. Ég var kominn að skothúsinu um 19 fór þá að græja mig skoða á teljarann sem er við ætið, sú græja virkar þannig að ef er hreyfing við ætið þá skráir hún niður tímann, á honum sá ég að mestar líkur væri að fá tófu um 1:30 og svo 5:30  en jæja um 19:15 er ég búinn að koma mér fyrir. Helli kaffi í bollann og bíð spenntur. Tíminn líður og svo um 1:30 þá kemur tófa að ætinu þá var orðið mjög dimmt en sá ég mórauða tófuna vel á snjónum ekki nema um 35 mtr í hana en hún stoppar ekkert og heldur ferð sinni áfram uppí hlíðina, það líður svona 1 min þá fer hún að gagga. Ég var svona að velta fyrir mér hvort ég ætti að svara henni en ákvað að gera það ekki heldur bíða og sjá hvort það kæmi önnur tófa á gaggið,  hún fer gaggandi suður á við og eftir um 20 min þá heyri ég að önnur tófa tekur undir. Heyri það á gagginu að þær hittast það líður klukkutími og þá gaggar tófa dáldið langt sunnan við mig ég ákveð að svara henni með einu gaggi, hún kemur á það og gaggar skammt frá mér en ég sé hana ekki. Svo líður tíminn fer að birta af degi kl: 5 er orðið albjart og sólskin  úff hvað það var gott því mér var orðið hálf kalt á biðinni þar sem að ég vanmat aðeins aðstæður og var frekar illa búinn. Svo um 5:30 þá sé ég hvar Móri kemur röltandi að ætinu, hann byrjar á því að lykta í kringum ætið þá er hann að athuga hvort eða hverjir hafa komið að ætinu, afar mikilvægt að hafa ekki labbað að ætinu áður en lagst er maður hefur séð tófur æða í burtu ef þær koma á mannaslóð við ætið.  Ég fer að koma mér í skotstellingu munda winchesterinn og þegar Móri snýr í mig hægri kliðinni þá læt ég skotið ríða af, og hann steinlá.  Um hálftíma seinna heyri ég gagg suður af mér svo sennilega á Móri vinkonu þarna einhverstaðar...InLove

Klukkan 7 fór ég svo heim.

En svona er þetta það getur verið löng biðin eftir einni tófu allt í allt frá því að ég fer að heiman og kem aftur heim þá liðu 14 tímar.  En hver einasti klukkutími er þess virði þegar vel tekst til einsog í þessu tilfelli. Það getur verið erfitt að þegar illa gengur og ekki næst tófa.

Kv, Sveinn

Ps: læt fylgja mynd af honum MóraMóri

 

 


Nú fer að koma vor

Nú er að koma sá tími að flestar tófur eru búnar að maka sig, fer það ekki á milli mála þar sem að þær eru núna miklu meira á ferðinni en þær hafa verið undanfarinn mánuð. Það er nefnilega þannig að meðan að mökunar tíminn er í gangi að þá ganga þær oft illa í æti og engin regla er að þeirra ferðum. Þannig að veiðin hefur verið í lágmarki undanfarinn mánuð, en þetta er að glæðast, ég sjálfur er að eltast við þær fram undir 20 apríl þá fer ég að slaka á þangað til farið er á greni. Vetrarveiðin hefur gengið ágætlega þennan veturinn er ég kominn með um 25 tófur skiptingin er 50/50 þ.e. helmingurinn refir og helmingur læður .

Afar gaman getur verið að fylgjast með háttarlagi tófu og þa sérstaklega þegar þær nálgast æti, alveg ótrúlega misjafnt hvernig þær bera sig að. Sumar æða beint að og byrja að borða, aðrar taka sér laangan tíma hlaupa marga hringi í kringum staðinn til að fullvissa sig um að allt sé í lagi. Tófurnar nota lyktarskynið langtum mest í varnaraðferðum og þá sér í lagi gagnvart manninum. Þegar maður er að skoða við æti hvort tófa gangi í þá skoðar maður vel og vandlega hvort tófan taki vind einsog sagt er. Þá er ég að meina hvort hún fari í vindlínu af ætinu eða skothúsi sé það til staðar.   Svo getur verið að tófan sé líka að athuga hvort önnur tófa sé í ætinu sumum tófum er alveg sérstaklega illa við að hittast, sérstaklega ef það er barátta um æti. Fékk ég leyfi hjá hinni margreyndu refaskyttu Kristjáni Einarssyni að setja hér inn mynd frá honum. Þar sést hvar tófur eru að koma í æti.

 Refir í æti

Ég sagði ykkur sögu hér um daginn með yfirskriftinni "Baráttan við móra"  sú saga heldur áfram og það nýjasta sem er að frétta að hann náðist á video þegar hann kom einn morguninn að fá sér bita, er ég að vonast til þess að hægt verði að koma þessu á tölvutækt form og ég geti sett þetta video hér inná síðuna, ef það tekst þá verður það nokkuð sérstakt að ég held,  því ekki er mikið til hér á landi þar sem tófur eru myndaðar við æti, vona að það gerist í þessari viku.

 

Annars ef þið kíkið hér inn þá endilega kvittið fyrir ykkur annaðhvort í gestabók eða bara í athugasemdum.

 

Gott í bili kv, Sveinn

Ps: þið getið klikkað á myndirnar til að sjá þær stærri.


Refaveiðar í Mongolíu

 

 Mongólískur veiðimaður

 

Stundum getur verið gaman að kynna sér hvernig aðrir stunda sínar refaveiðar. Oft þá er maður að rekast á aðrar refaskyttur hér á landi og hver er með sína útfærslu að veiðunum. Þó svo að þetta séu sömu aðferðir í grunninn þá hafa þær bara þróast misjafnlega og menn útfært þær eftir staðháttum að fyrri reynslu. 

En svo má líka nota sér netið til að kynna sér fleiri aðferðir við veiðarnar, og ein sú allra mikilfengasta er aðferð Mongóla (Kazakh ) . Þeir búa í fjöllunum í vestur Mongólíu, þar sem þeir viðhalda uppruna sínum, menningu og ævaforni hefð.   Þangað flýðu margir undan ofsóknum sovétmanna í byrjun 20 aldar.  varð það til þess að fólkið varðveitti og viðheldur menningu sinni. Ein sú elsta og sú virðingar mesta hefð,  eru veiðar með Gullörnum (Golden Eagle).  Þessar veiðar hafa verið stundaðar afar lengi, berst milli föður og sonar.  Þeir ná ungunum úr hreiðrunum rétt áður en þeir verða fleygir, fara með þá heim og byrja þjálfunar ferlið sem tekur að jafnaði um 4 ár. Þá eru Ernirnir  tilbúnir að halda út til veiða. Helst vilja þeir nota kvenfuglinn þar sem að hann verður stærri og svo eru þær miklu grimmari.  Hver fugl er um 10 ár með þjálfara/meistara sínum, þá er náttúrann farinn að kalla og fuglinn vill fara að eignast sín afkvæmi, þá verða þeir snuppóttir og óútreiknalegir, þá hafa þeir þann sið að fara uppá hátt fjall gefa erninum rollu og skilja hann þar eftir svo hann geti svo farið frjáls ferða sinna og sinnt kalli náttúrunnar  og komið upp afkvæmum.   Kemur það fyrir að fuglinn komi heim og heilsi uppá fyrrverandi húsbónda, verða það miklir fagnaðrfundir, svo heldur hver i sína átt aftur.

Maður  og fugl deila ávallt bráðinni, þ.e. fuglinn fær ávallt sinn skammt.  Veiðarnar fara fram á veturna, þegar erfiðast er að lifa. Sumrin eru notuð í að safna fitu hjá fuglinum. Veiða þeir bæði refi og úlfa með þessari aðferð, nýta feldinn og kjötið.    

Er þetta ein sú allra magnaðasta aðferð við refaveiðar sem ég veit um og jafnframt sú virðingamesta. 

 Set inn tengil á videó þar sem að er sýnt frá þessum veiðum, mæli hiklaust með að fólk kíkji á þetta, sjón er sögu ríkari.

 

Kv, Sveinn

mongóliskur veiðimaður


Pörunar tími refa

Þessa dagana  er mökunar ferli refa í hámarki.  Þá er nú sko mikið um að vera hjá tófunum, steggirnir eru alveg spólandi þið vitið... á eftir læðunum ætla sko að vera á staðnum þegar þær eru tilbúnar fyrir að fá blönduna góðu. 

Tilhugalífið hjá refum er mikið ferli, steggirnir þurfa að sýna sig og sanna, mega ekki láta aðra steggi valta yfir sig eða reka sig burtu, þeir þurfa að passa uppá sitt svæði/óðul, sem eru reyndar afar misstór og misjafnt hvað þær eru þétt en það verður í öðrum pistli.  Þegar steggurinn hefur náð sér í læðu þá hefst "stefnumóta" tíminn. Parið hittist oft og reglulega, jafnan  á svipuðum stað. Ef farið er út á þessum tíma árs  snemma kvölds í blíðviðri þá má oft heyra þegar parið er að gagga sig saman. Gaggið nota tófur mikið bæði til að finna hvort annað og svo vara hvort annað við aðsteðjandi hættu. Svo nota tófurnar gaggið mikið við yrðlingana sem vonandi verðu ávöxtur framangreindrar iðju.

Parið fer svo fljótlega að velja sér "bústað" (greni) til að ala hvolpana, þá veltur á að finna sér þurran stað (greni) sem er nú ekki vandamálið síðustu árin vegna snjóléttra vetra. Gömlu grenin eru flest uppí hæðum og hólum, en nú er orðin breyting á,  tófan er farin að hafa miklu meira val um grenstæði vegna snjóleysis. Það gerir grenjavinnsluna erfiðari þ.e. erfiðara að finna þær. Þetta kannast orðið allar grenjaskyttur við að þær eru á nýjum og óþekktum grenjum.

 Á mökunar tímanum má oft fara út og gagga, í þeirri von að einmana tófa sem ekki hefur fundið sér maka taki heldu betur vel undir þegar hún verður var við hugsanlegan maka, þá koma þær oft hlaupandi á gaggið, ...eeen ávallt með varann á sér þ.e. nálgast ætíð gaggið uppí vindinn. Maður getur nú samt staðsett sig þannig að það torveldi tófunum að nálgast mann uppí vindinn. Þetta getur verið alveg gríðarlega skemmtilegt að glíma við tófurnar á þennan hátt.

 

Vil benda á tenglana hér til hliðar er búinn að setja inn video fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá tófurnar í sínu umhverfi. 

 

kv, Sveinn 


Baráttan við móra

 

Ákvað að henda inn smá pistli um barning minn við mórauðan ref einn sem er orðinn helvíti góður með sig.

Þetta byrjar nú allt þannig að ég ákveð að bera út rétt við ákveðinn sveitabæ, var það fyrst og fremst útaf áhuga ábúandans sem að ég sló til. Þar sem að mig grunaði að þarna gætu nú verið nokkrar tófur þá ákvað ég að bera þetta út um ca 70mtr frá íbúðarhúsinu. Þar var smá kofi til að liggja í. kofinn er um 50mtr frá húsinu og setti ég ætið 26mtr útfrá honum. Það háttar þannig til að það er mikil brekka svo sem liggur meðfram bæjarstæðinu og er ætið ca þar sem hún byrjar. Það eru sterk útiljós þarna þannig að brekkan lýsist öll upp, var pælingin að það gæti hjálpað manni ef rebbi skildi nú þora að koma í ætið.

Fyrst um sinn gerist nú ekkert, átti svosum ekki von á því strax en grunaði að ef að dýr myndi freistast í þetta, þá yrði það oftast seint um nóttu eða undir morgun, eftir um ca einn og hálfan mánuð kem ég að ætinu, og finnst ég sjá ummerki eftir dýr sem hafði komið í ætið en var ekki alveg viss því það hafði snjóað aðeins undir morgun. Alla vega ákvað ég að setja skrásetjarann við ætið, fór aftur morguninn eftir til að athuga með skráningar, og það passaði við það sem ég hafði verið búinn að ímynda mér, skráning um kl 6 um morguninn. Ok ég sáttur stilli skrásetjarann og er rólegur í 2 daga, svo kem ég aftur reyndar að kvöldlagi um 21:00 og vona að hún haldi reglu að koma á sama tíma. Nei ekki aldeilis, það voru hvorki meira né minna en 82 skráningar allar á meðan dimmt var meira að segja um hálftíma áður en ég kem svo ekki var það fuglinn, svo leyndi það sér ekki á slóðunum. Fyrstu skráningar um 19:30 um kvöldið og svo alveg reglulega til hálf átta um morguninn, báðar nætur. Þessar 2 nætur var frost og vetur þegar ég er að tékka þá er komin hláka og vesen, ég leggst við og ligg til 2:30 ekkert var !! ansans helvíti hugsa ég þær hafa sjálfsagt bara orðið varar við mig þegar ég mæti í kofann, jæja ég hunskast heim þið vitið hvernig þetta er blessuð vinnan slítur allt í sundur hjá manni. Það háttar nú þannig til að með engu móti gat ég lagst næstu nótt, en nóttina þar á eftir leggst ég aftur, byrja á að kíkja á skrásetjarann jú alveg fullt af skrásetningum og það passaði, það var skrásetning 2,5 tímum eftir að ég fór þarna fyrri nóttina. En hvað um það nú leggst ég og er enn bjart þegar ég kem mér fyrir, nú átti að mæta þeim...en ekkert skeður tíminn líður 20..21..22.. 23..00..01...01:45 jú þarna heyri ég í kalli hann gaggar líka svona flott fyrir ofan mig uppí brekkunni, en sú hugsun fer nú í gegnum hugann að þetta boði ekki gott hann er bara á kvennafari.. en bíddu hann kemur nær heyri það á gagginu, jaa hver andskotinn nú gaggar hann við kofann, og að sjálfsögðu er hann vitlausu meginn það eru ekki meira en svona 15mtr í hann, þegar hann gaggar aftur og aftur svona nálægt þá áttar maður sig betur á því hvað flauturnar ná þessu vel .... en þarnar skokkar hann að ætinu nú leggst ég framá byssuna fer að leita að honum í sjónaukanum en hann vill ekki stoppa og ég er of seinn að fatta hann er farinn aftur norður fyrir mig, ég náði ekki að gagga á hann til að stoppa hann, og ég heyri þegar hann fer gaggandi í burtu. Svo hélt ég nú að það mundi láta sjá sig tófa um 6 leytið en það gerðist ekki og ég fór heim. Nú þurfti að leggjast undir feld og hugsa hvernig væri hægt að snúa á hann. Eftir að hafa hugsað þetta allan daginn í vinnunni þá ákveð ég að fara á hlaðið á bænum og gagga. Ég kem mér þægilega fyrir við rúllustæðu sem er þarna rétt við hliðina á kofanum. Því ég reiknaði með að ef hann myndi koma á gaggið þá kæmi hann svipaða leið og þegar hann kemur þarna fyrri nóttina. Eina sem var að aftra mér að það var búið að hlána svo mikið að snjórinn var að miklu leyti farinn þó að nokkrar fannir væru ennþá. Jæja ég læt eitt gagg fara....það líða ca 2min og þá kemur líka þetta fína gagg rétt hinumeginn við kofann og aftur gaggar hann þegar ég lít til hliðar þá situr hann við hliðina á ætinu og stendur hreinlega á gagginu.. og ég kem ekki á hann skoti svo skokkar hann framhjá mér, meðfram girðingunni sem liggur þarna samsíða brekkuni þegar hann kemur á góðan snjóskafl þá gagga ég á hann þ.e. Bara sjálfur ætlaði bara að fá hann til að stoppa en nei þá svarar hann með gaggi á hlaupunum... og sest svo níður rétt bakvið þúfu þannig að ég sé hann ekki... þar gaggar hann nokkrum sinnum og svo fer honum að leiðast fyrst hann fær enga undirtekt og er að fjarlægjast ég ákveð þá að svara honum með 2 göggum hann kemur en ekki í færi.. svo endar það þannig að hann fékk nóg og fór.

Þannig standa nú leikar hjá okkur, ætla að fara fljótlega aftur og verðu gaman að sjá hvort hann komi aftur á gagg.

 Annars er mikið af ref um þessar mundir, þeir hafa það svo gott þegar það er svona mildur vetur.

Gott í bili

kv, SveinnP3030069 [800x600]

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sveinn Björnsson

Höfundur

Sveinn Björnsson
Sveinn Björnsson
Menntaður vélsmiður. Er refaskytta og áhugamaður um íslenska náttúru.

Spurt er

Eru refaveiðar mikilvægar?

Nýjustu myndir

  • selstaðarhliðar
  • gráhóll
  • nibbugreni
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband