Færsluflokkur: Bloggar

Refajól

Gleðileg jól

 

Hafið það nú gott yfir hátíðarnar

 

með refajóla kveðju

 

Sveinn


Fæðuval refa

Sælt veri fólkið.

 Ég hef annaðslagið undanfarin ár verið í sambandi við Pál Hersteinsson. Sem er sá sem hefur stundað mestar rannsóknir á refum og þeirra lífsháttum. Páll sér einnig um vöktun refastofnsins. Á hann miklar þakkir fyrir ævinlega skjót og góð svör.  Nú um daginn þá spurði ég hann hvort hann væri til í að svara spurningum frá mér og ég myndi svo birta spurningarnar og svörin hér á blogginu hjá mér. Hann tók nú heldur betur vel í það og ég sendi á hann 15 spurninga lista. Þar sem að ég get verið kræfur í spurningum þá munu þetta verða afar greinargóð svör. Þess vegna mun ég birta þetta hér reglulega 1-2 spurningar í senn.  Alla vega hér er fyrsta spurningin.

Fyrsta spurningin hljóðar svona:

1. Hvað er megin uppistaða í fæðuvali refa? Er það t.d. Misjafnt eftir landshlutum? Þarf kanski líka að taka tillit til árstíma?

 

Fæða refa er ákaflega misjöfn eftir landshlutum og árstíðum. Það er því ekki auðvelt að svara þessari spurningu í stuttu máli. Mun meira er þó vitað um fæðuval að sumarlagi en að vetrarlagi. Þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að meta fæðuval eru nokkrar en þessar eru helstar: (1) greining á fæðuleifum í saur, (2) skráðar fæðuleifar við greni og (3) greining á fæðuleifum í maga.

Eina rannsóknin hérlendis á fæðuleifum í refasaur á öllum árstímum, sem mér er kunnugt um, var gerð í Ófeigsfirði á Ströndum árin 1978 og 1979 og var sagt frá henni árið 1987 í Fréttabréfi veiðistjóra 3(2), bls. 16-30. Niðurstöður sýndu að þar var breytileiki í fæðuvali afar mikill eftir árstíðum. Niðurstöðurnar eru teknar saman eftir mánuðum í línuritunum hér fyrir neðan.

línurit 1 Línuritin sýna fæðuval annars vegar sem tíðni þess að tiltekin fæðutegund kom fyrir í saur og hins vegar sem hlutfallslegt magn þurrefnis af tiltekinni fæðutegund í saur. Heil lína táknar árið 1978 en punktalínan árið 1979. Í stuttu máli sýndu niðurstöður að svartfugl var mikilvæg fæða að vetrarlagi en síður að sumarlagi. Fýll og æðarfugl voru mikilvæg fæða að sumarlagi en ekki að vetrarlagi. Rjúpa var ekki mikilvæg fæða en þó heldur algangari að vetrarlagi en að sumarlagi. Hagamýs og krabbadýr (t.d. marflær) voru algengar í fæðu að haustlagi en ekki á öðrum árstímum. Mikill munur var milli ára að því leyti að síðla vetrar og vorið 1979 lá hafís við land og mjög kalt var um vorið og sumarið. Það hafði þau áhrif að krækilyng bar ekki ber það árið og krækiber, sem refir höfðu étið mikið af haustið 1978, komu varla fyrir í fæðunni haustið 1979. Hins vegar var mikið af leifum þangflugulirfa og púpa í saurnum síðsumars og haustið 1979, en hafísinn hafði skafið þang af botni og kastað á land um veturinn. Því voru miklir bunkar af rotnandi og hlýju þangi víða í fjörum sem þangflugur nýttu sér og urðu þær fæða fyrir refi í stað krækiberja það haustið. Þá rak minna af svartfugli vetur og vor 1979 vegna hafíssins en árið áður og kom það fram í fæðuvali. Ég safnaði líka saur við greni í Hálsasveit og á Arnarvatnsheiði í júlí 1980 og 1981 (71 sýni). Þar var hlutfall þurrefnis í saur eftirfarandi: Vaðfuglar 76%, rjúpa 10%, sauðfé 6%, spörfuglar 4%, andfuglar 2%, jurtir 2% og annað (þ.á m. eggjaskurn) <1%. Þessar niðurstöður eiga þá við um sumarfæðu dýranna þarna.    Loks greindi ég saur (135 sýni) sem safnað var við Snæfell og á Vesturöræfum á tímabilinu maí-ágúst 1979-1981. Þar var fæðan töluvert öðruvísi, en hlutfall þurrefnis í saur var eftirfarandi: Hreindýr 29%, andfuglar 24%, sauðfé 16%, vaðfuglar 15%, rjúpa 11%, krækiber 3%, skordýr 1%, annað (spörfuglar, eggjaskurn, hagamýs) 1%. Hins vegar var mikið af þessum saur gamall, líklega frá vetrinum, enda ekki safnað við greni.

Grenjaskyttur sem senda mér hræ af unnum refum fylla út eyðublað með hverju dýri þar sem ég bið þá um að geta um helstu fæðuleifar á viðkomandi greni. Þessar upplýsingar gefa nokkra mynd af því hvar algengast er að finna viðkomandi tegundir meðal fæðuleifa á greni. Þegar hlutfall grenja með viðkomandi fæðuleifum er skoðað eftir fjarlægð grenis frá sjó sést að dreifing flestra fæðutegunda er mjög misjöfn eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan. Eftirtaldar tegundir verða marktækt algengari eftir því sem grenið er nær sjó: Fýll, svartfuglar, æðarfugl, hrognkelsi og máfar (þ.á m. rita og kría). Eftirtaldar tegundir verða hins vegar marktækt algengari eftir því sem fjær dregur sjó: Gæsir, rjúpa, vaðfuglar, spörfuglar og endur (aðrar en æðarfugl).  

línurit 2

Mikilvægt er að hafa í huga að þessi gögn veita aðeins takmarkaðar upplýsingar um

mikilvægi einstakra tegunda eða tegundahópa fyrir tófuna. Sumar tegundir eru meira áberandi eða endast lengur á grenjum þannig að meiri líkur séu á að skyttur skrái þær sem fæðuleifar. Til þess að athuga hvernig samræmi væri milli fæðuvals fullorðinna dýra og fæðuleifa á grenjum var gerður samanburður á magainnihaldi grendýra við sjó (Hólmfríður Sigþórsdóttir líffræðingur vann þá rannsókn) og fæðuleifa grenja við sjó, en niðurstöðurnar eru sýndar á myndinni hér fyrir neðan. Hvort tveggja eru tíðnigögn, því að gögnin leyfðu ekki magnbundinn samanburð

línurit 3

Bláu súlurnar sýna magainnihald en rauðu súlurnar sýna fæðuleifar á greni. Ljóst er að fullorðnu dýrin éta nokkuð af hryggleysingjum, fyrst og fremst skordýr á borð við þangflugur, fiðrildalirfur og æðvængjur (aðallega hunangsflugur) sem þau bera eðlilega ekki heim á greni. Þá er ákveðinn hópur fæðutegunda sem er algengara að finna í maga fullorðnu dýranna en meðal skráðra fæðuleifa á greni. Þar má telja hagamýs, egg ýmissa tegunda, spörfugla, vaðfugla og máffugla. Sauðfé var álíka algengt í maga dýra og meðal skráðra fæðuleifa. Þá var eftirtalin fæða algengari meðal skráðra fæðuleifa á greni en í maga fullorðnu dýranna: Andfuglar, rjúpur, svartfuglar og fýll. Loks komu hrognkelsi og aðrir fiskar fyrir meðal fæðuleifa á greni en fundust ekki í maga dýranna.

Þessi munur á fæðu fullorðinna dýra og fæðuleifa á grenjum getur átt sér tvær orsakir sem ekki útloka hvor aðra. Augljóst er að smágerð fæða á borð við hryggleysingja er étin en ekki borin heim á greni. Þá er hugsanlegt að dýrin séu líklegri til að éta aðra smáa bráð en að bera þau heim á greni og getur það t.d. átt við um hagamýs, egg og spörfugla. Það er nokkuð augljóst að hagkvæmara er að bera stóra bráð heim á greni en smáa. Svo er hugsanlegt að grenjaskyttur veiti fremur athygli stórgerðri eða áberandi bráð, t.d. fýl, rjúpu og æðarfugli, og skrái hana því frekar sem fæðuleifar á greni en smærri bráð.

Þrátt fyrir þessa annmarka gefa upplýsingar um fæðuleifar á greni mikilvægar upplýsingar. Sannleikurinn er sá að vistkerfi eru kvik, þ.e. stofnar stækka og stofnar minnka. Fæða refanna getur veitt nokkra innsýn í það. Dæmi um það er tíðni fýls meðal fæðuleifa á greni. Ég hef skipt landinu í tvennt, vestanvert landið (frá Reykjanesskaga í suðri til og með Vestfjarðakjálka í norðri) og austanvert landið (frá Árnessýslu og Húnavatnssýslum í vestri og austur um). Þessi skipting er fyrst og fremst gerð af hagkvæmnisástæðum en á sér þó vistfræðilega réttlætingu þar sem vestanvert landið er með afar langa strandlengju miðað við flatarmál, ólíkt austanverðu landinu eins og það er skilgreint hér.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig tíðni grenja með fýlaleifum breyttist á tímabilinu 1980-2005:

línurit 4

Eins og sjá má jókst tíðni fýlaleifa á grenjum bæði á vestanverðu (vinstra línurit) og austanverðu landinu (hægra línurit) á fyrri hluta tímabilsins eða frá því um 1980 og fram undir aldamótin. Þessar breytingar ríma mjög vel við það sem þekkt er um breytingar á varpútbreiðslu og stærð varpstofns fýls en fjöldi þekktra fýlavarpa tífaldaðist á seinni hluta síðustu aldar en undanfarinn áratug eða svo hafa fýlavörp farið minnkandi.

Auk þess sem gögn um fæðuleifar á grenjum geta veitt upplýsingar um breytileika í fæðuvali milli landshluta og breytingar með tíma, getur nákvæmari athugun á fæðuleifum veitt upplýsingar um breytileika á minni mælikvarða. Árið 1999 var farið á öll þekkt greni í Hornstrandafriðlandi og fæðuleifar skráðar nákvæmlega. Á kortinu hér fyrir neðan má sjá greni í ábúð það sumar (rauðir deplar) auk annarra grenja sem ekki voru í ábúð (opnir hringir). Friðlandinu er þarna skipt í þrennt, þ.e. Sléttuhrepp hinn forna (nyrst og vestast), Grunnavíkurhrepp Strandamegin og Grunnavíkurhrepp Jökulfjarðamegin. Í töflunni undir kortinu má sjá fæðuleifarnar sem fundust á grenjunum. Þessar niðurstöður birtust upphaflega árið 2000 í Náttúrufræðingnum 69, bls. 131-142.

línurit 5

Hér eru gögnin magnbundin, þ.e.a.s. fjöldi leifa af hverri tegund var talinn, ekki aðeins getið um hvort viðkomandi bráð var til staðar. Munurinn milli svæða innan friðlandsins er áhugaverður. Í Sléttuhreppi eru m.a. sum stærstu fuglabjörg landsins og þar var svartfugl helsta fæðan eða rúmlega 40% fæðuleifa. Næst kom fýll og loks rita en aðrar tegundir voru í minna mæli. Strandamegin í Grunnavíkurhreppi var svartfugl aðeins 15% fæðuleifa en þess ber að geta að þar er ekkert svartfuglsvarp svo að líklega eru þetta aðallega leifar sjórekins fugls. Fýll var aftur á móti algengasta fæðugerðin, um 75%, en aðrar tegundir voru óverulegur hluti fæðuleifa. Jökulfjarðamegin í Grunnavíkurhreppi er allt annað uppi á teningnum. Þar var fýll yfir 90% fæðuleifa og sáralítið af annarri fæðu. Þarna sést vel hve miklu máli aðgangur að bjargfugli og reka skiptir fyrir fæðuval refanna í friðlandinu. Fýll verpir víða og því aðgengilegur refum í Jökulfjörðum þótt þar séu engin eiginleg fuglabjörg og reki afar takmarkaður. Jafnframt sést á kortinu hve hlutfallslega miklu fleiri greni voru í ábúð í norðanverðu friðlandinu en í því sunnanverðu. Þá má líka benda á, sem ekki kemur fram í töflunni en má reikna út frá henni, að meðalfjöldi fæðuleifa á hverju greni var mestur í Sléttuhreppi hinum forna (14,6), næstmestur í Grunnavíkurhreppi Strandamegin (12,0) en langminnstur í Grunnavíkurhreppi Jökulfjarðamegin (5,8). Allt bendir þetta til að Jökulfirðirnir séu lakara búsvæði fyrir refi en norður-og vestursvæðið.

Eins og hér hefur komið fram er meira vitað um fæðuval refa að sumarlagi en vetrarlagi. Hins vegar er mikilvægt að afla frekari upplýsinga um fæðuval að vetrarlagi þar sem frjósemi refa er væntanlega afar háð aðgangi að fæðu um og fyrir fengitíma. Þess vegna er núna í gangi rannsókn á vetrarfæðu refanna með rannsókn á magainnihaldi sem Hálfdán Helgi Helgason líffræðingur sér um. Það er hins vegar hægara sagt en gert að fá rétta mynd af fæðu dýra að vetrarlagi því að flest veiðast þau við agn og því er afar líklegt að skekkt mynd fáist. Enn á eftir að ráða fram úr hvernig leiðrétta má fyrir þá skekkju. Jafnframt má geta þess að enn sem komið er ná gögnin aðeins yfir tvo vetur, 2007-2008 og 2008-2009 og gögnin hafa heldur ekki verið greind eftir landshlutum eða mánuðum (veturinn er hér skilgreindur sem tímabilið október-apríl).

Bráðabirgðaniðurstöður eru þessar: Rúmlega 60% magainnihalds voru leifar spendýra, þar af meiri hlutinn (80-85%) af sauðfé og hrossum sem refaskyttur höfðu vafalaust borið út fyrir refi en önnur spendýr voru hreindýr og hagamýs. Fuglar voru um fjórðungur magainnihaldsins. Af þeim hluta voru sjófuglar rúm 40%, rjúpa um 25%, andfuglar rúm 10%, spörfuglar og vaðfuglar 12% samanlagt en afgangurinn voru aðrar og ógreindar tegundir. Rétt er að ítreka að þessari rannsókn er alls ekki lokið.

Hér hefur verið farið yfir helstu upplýsingar sem fyrir liggja um fæðuval refa á Íslandi. Niðurstaðan er sú að fæða íslenska refsins sé afar fjölbreytt og breytileg milli landshluta, m.a. eftir fjarlægð frá sjó, sem og eftir árstíðum. Tófan er tækifærissinni og nýtir sér það sem fyrir hendi er á hverjum stað á hverjum tíma, hvort sem um er að ræða náttúrulega fæðu eða útburð okkar mannanna.

 

 


Refalitir: Hvítt og Mórautt

 

Hvítt og mórautt

 

Aðeins meira um litina hjá refnum. Einsog áður hefur komið fram að þá eru eingöngu 2 litir hjá refum þá eru dýrin annaðhvort mórauð eða hvít og þau eru það þá allt árið um kring en þegar tófur eru að “fella” vetrarfeldinn þá geta þær verið ansi skrautlegar. Áður en vetrarhárin falla af þá byrja þau á því að upplitast, þetta gerist á vorin og þá einmitt fara tófurnar að velja sér grenstæði, ganga þá oft um munna grenisins og við það dragast oft hárin vel af þeim í munnum grenisins, þá er oft talað um að tófa sé “grensmogin”. Geta vanir menn á vormánuðum oft séð það á tófunum hvort þær eigi sér gren þá um vorið eða ekki. Set hér inn myndir til að glöggva sig á þessu.

silfruð í andliti    Mórauð tófa  silfruð í andliti

mórauð í sumarbúning   Mórauð tófa í sumarbúningi

hvít tófa í sumarbúning    Hvít tófa í sumarbúningi

Hvítt í bringu  Mórauð tófa aðeins byrjuð að upplitast en þessi er með hvítt á fæti og í bringu

upplituð mórauð tófa  Upplituð mórauð tófa

 

 

Hvítar tófur á sumrin geta virst gráar eða flekkóttar meðan að þessar mórauðu halda frekar sínum venjulega lit ef svo má segja. Til eru nokkrar undantekningar í þessu einsog svo flest öllu öðru þá er nú kanski algengast hið svokallaða “landroverbrúna” afbrigði, svo geta þessar mórauðu verið með hvítan blett á fæti(einsog sokk) eða hvíta rák á bringu osfrv. Svo geta þessar mórauðu verið mismikið “silfraðar” einsog við köllum það en þá eru áberandi silfruð yfir hár þá oft í andliti.

 

En hvernig viðhelst jafnvægi á milli litanna? Ekki er nú jafn mikið af hvítum tófum á öllu landinu, á vestfjörðum t.d. Er mun meira af mórauðum tófum, en mest er af hvítum tófum á N-Austurlandi og á Austurlandi, ekki veit ég afhverju þetta er svona en talað er um að mórauða litaafbrigðið sé ríkjandi. Ef við einföldum þetta á manna mál þá er þetta flokkað í þrennt.

Hvítt (arfhrein þ.e. Gefur ekki mórauða litinn)

Arfhreinn mórauður (gefur ekki hvítt)

Arfblendin mórauð

Þannig að ef 2 tófur af hvíta litnum eignast hvolpa þá verða þeir allir hvítir. Ef að hvít tófa og arfblendin mórauð tófa eignast afkvæmi þá verða hvolparnir í báðum litum verður þá litaskiptingin oft til helminga hjá hvolpunum. Ef að 2 tófur arfblendnar mórauðar eignast afkvæmi þá geta hvolparnir verið í báðum litum þá er algengt að þeir hvítu séu um fjórðungur hvolpanna. Ef að hvít tófa og arfhrein mórauð tófa eignast afkvæmi þá verða allir hvolparnir mórauðir, en svo ef þessir hvolpar eignast afkvæmi þá geta þeir gefið hvítt ef þeir t.d. makast við hvíta tófu osfrv......

 

Gott í bili

kv, Sveinn


Rjúpur og refalitirnir

Rj�pa afar g�f 

Hér á norðaustur horninu er bara kominn vetur,mikill snjór kominn í fjöll og í heiðunum. Var á rjúpnaveiðum í gær og það var virkilegt puð að labba í kjarrinu, en á móti alveg frábærlega gaman. Aðstæður voru afar skemmtilegar, frostið jókst allan daginn mikill snjór yfir öllu, mikið var um rjúpu. Ég var á snjóþrúgum í fyrsta skipti ef ég hefði ekki fjárfest í þeim þá hefði maður komist mun minna um því án þeirra var snjórinn minnst uppí hné og svo sumstaðar uppí mitti. Um 12 leytið var ég ofarlega í brekku og sá yfir veiðisvæðið og þá fyrst kom sólarglenna þá sá maður rjúpurnar víða, í sama mund kom fálki og renndi sér yfir svæðið, það var ekki að spyrja að því rjúpurnar splundruðust um allt. Ég var ekki sáttur því oft hefur fálkinn náð að eyðileggja fyrir manni daginn því rjúpan verður oft svo helvíti stygg í kjölfarið á að fálkinn er búinn að vera á sveimi. En alltaf er nú samt gaman að fylgjast með þessu öllu saman, á heimleiðinni sá ég 2 fálka. Frostið var orðið svo mikið í lok veiðdags að allar rjúpurnar voru frosnar í vestinu, þannig að ég mátti fara með það heim og þýða það áður en ég gat tekið rjúpurnar úr því:)

 

 

Aðeins um refinnWink

Ég hef lent í því nokkrum sinnum að sumir halda að refurinn sé hvítur á veturna og brúnn á sumrin :) En auðvitað eru hvítir refir alltaf hvítir og mórauðir alltaf mórauðir. Þó svo að þessir hvítu geti virst gráir á sumrin.

En ein spurning um þetta að gamni:

Ef að arfhreinn mórauður refur eignast afkvæmi með arfhreinni hvítri læðu, segjum að þau eignist 6 hvolpa,  hvernig verða þá hvolparnir á litinn??

Endilega reynið að svara þessu:)

 

kv, Sveinn


Aukning refsins

Það eru greinilega fleiri sem eru farnir að hafa áhyggjur af stöðugri aukningu á refnum.  Þetta er nú bara rétt byrjunin ef að það verður slakað enn meir á veiðum á ref.  Það er nokkuð ljóst að ef áfram heldur sem horfir að það verði afar stutt í að ekki verði hægt að stunda t.d. rjúpnaveiðar hér á landi. Svo virðist einnig vera að koma í ljós það sem reynsluboltar í refaveiðum og reynslu sinni við að umgangast refinn hafi mikið til síns máls gagnvart því að við aukningu á ref að þá bitni það fyrst og síðast á fuglalífi landsins og svo að refurinn mun ganga mun harðar í sauðfé.  "Umhverfis elítan" verður bara að hætta þessu bulli og fara að þora að viðurkenna framgang refs og annars vargs.  Og þeir sem hafa áhuga á að rannsaka og kynna sér atferli refa mættu einnig skoða útfyrir refafriðlandið á Hornströndum,  rannsóknir sem snúa að t.d. viðbrögðum refs við aukningu á ferðamönnum á Hornströndum hjálpa ekki neitt við að komast nær þeim skaða sem refurinn veldur.

Ég get ekki á nokkurn hátt séð að aukning á ref stuðli að betri náttúru á Íslandi.  Ég skil heldur ekki þetta kæruleysi stjórnvalda í þessum málaflokk, getur verið að sumir ráðamenn/ráðherrar séu bara orðnir ónæmir fyrir raunverulegri náttúru og náttúruvernd?????  

 

kv, Sveinn


mbl.is Æti skortir fyrir refinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eflum refaveiðar

Sælt veri fólkið.

Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort það séu margir svona einsog ég, þá er ég að meina sem hefur svon óþrjótandi áhuga á refum, refaveiðum og þeirra lífsháttum?  

Auðvitað spyr maður sig stöku sinnum hvort þetta sé vitleysa hjá manni að það sé mikilvægt að halda úti skipulögðum veiðum á ref. Hef farið yfir marga þætti tengda þessu og alltaf kemst ég að sömu niðurstöðu, já ég held að það sé afar mikilvægt að halda úti skipulögðum veiðum á refnum. Þeir sem halda hinu gagnstæða fram hafa ekki mikil rök í sínum höndum þeirra helstu rök eru: "þetta er bull" eða "maðurinn er vargurinn, refurinn var hér á landinu fyrst" eða " náttúran sér um sig sjálf"    Í mínum huga  þá þarf í þessu einsog öðru að skoða málin í samhengi við svo margt.  En einsog staðan er í dag þá er þörf á að efla veiðina, refnum fjölgar gríðarlega þessi árin og eru áhrifin augljós, bæði hvað varðar fuglalíf og svo eru þær farnar að herja á kindurnar í auknu og harðara mæli. Sem betur fer eru öflugir refaveiðimenn í landinu sem ná oft allra hörðustu dýrbítum(refum) fljótt og örugglega. það félag sem ég er í er heitir Bjarmaland og er félag atvinnuveiðimanna á ref og mink, hefur verið í sókn undanfarið og hefur t.d. komið upp læstu spjallsvæði fyrir meðlimi og þar erum við stundum að skrifast á bæði um veiðar og svo afleiðingar fjölgunar á tófum. Á spjallinu hafa menn til dæmis komið með þeirra reynslu af viðureignum við dýrbíta, þetta eru ekki fagrar lýsingar og eru myndirnar ljótar.  Þið getið skoðað myndir af þessu hér í myndaalbúmi undir flokknum "dýrbítar"

Niðurlag mitt að þessu sinni er einsog fyrir sögnin segir,  eflum refaveiðar !!

 

Svo langaði mig að biðja ykkur um að endilega að taka þátt í skoðanarkönnunni hér vinstra megin.

Þarna vinstra megin eru einnig fullt af video tenglum endilega kíkið á þá.

Svo fyrst og síðast endilega kvittið í gestabók eða skrifa comment og látið gamminn geysa :)

 

kv, Sveinn


Refir á haustin

 

Nú fer að skella á vetur, eða ef að vetur má kalla. Síðustu ár hafa nú verið svo mild frammí febrúar þó svo við höfum fengið nokkra skelli, en þá hefur nú yfirleitt hlánað í kjölfarið þannig að lítill sem enginn snjór hefur verið fyrr en komið er vel frammá nýtt ár. Hafa þessar veðurbreytingar sem hafa orðið miðað hvað var hér ekki fyrir svo mörgum árum hjálpað tófunni í að heyja sína lífsbaráttu yfir vetrarmánuðina?

Oft gaman á veiðum     

Nú eru hvolparnir orðnir það stórir að þeir þurfa að sjá um sig alfarið sjálfir, hjá tófunni er það þannig að þegar kemur að því að hvolparnir fara að sjá um sig sjálfir að þá hrekur tófan þá í burtu gæti sagt eitthvað á þessa leið: “jæja nú er ég búin að kenna ykkur það sem þið þurfið að vita svo drífið ykkur nú á vit ævintýranna” . Þegar hvolparnir fara svo í sínar fyrstu ferðir að bera sig eftir æti að þá eru þeir svo reynslulitlir/æfingalitlir í veiðunum að oft er það nú freistandi að fara í það sem er auðveldast að ná í. Það getur nú samt verið ýmislegt á boðstólnum, refir borða mikið af berjum á haustin, þeir ganga fjörurnar þar má oft finna eitthvað bitastætt, og svo leita þeir eftir forða frá sumrinu þá egg o.þ.h sem hefur verið stungið undir lyng eða grafið í moldarbarð. Svo má nefna hræ, hvolpar ganga oft afar vel í hræ á þessum árstíma þá kanski sérstaklega fuglahræ.

Þannig að já ég held að mildari vetur hjálpi tófunni mikið, þá sérstaklega í sínum fyrstu sporum í að heyja sína lífsbaráttu.

Alltaf gaman þegar vel tekst til :)

Er ég nú búinn að kíkja aðeins eftir ref í haust, í kelduhverfinu sýnist mér nú þjóðgarðurinn heldur vera að eflast sem útungarstöð á ref. Nú er hægt að fara í verslunina Ásbyrgi og panta sér bragðaref og fylgjast með einum slíkum útum gluggann, ekki óalgengt að sjá þá valhoppa yfir golfvöllinn og svo renna þeir sér vestur að eyjunni rétt framhjá sturtuaðstöðunni. Svo er einn sem fer reglulega yfir brúnna yfir Jökulsá á fjöllum yfir í öxarfjörð(veit nú samt ekki hvað sá er að brasa í öxarfirðinum, en alla vega kemur hann alltaf fljótt afur í sælunaWink). Einn refurinn var í sumar að sniglast í kringum sumarbúðirnar á Ástjörn, þar þótti mönnum nú nóg um og spurðu mig hvort ég gæti skotið þann ref því þar er mikið að börnum og aldrei að vita uppá hverju vilt dýr geta tekið þó svo að ekki séu til dæmi um það hjá íslenska refnum en þá eru annaðslagið að koma upp tilfelli hjá rauðrefum t.d. á Bretlandi en þar hafa einmitt veiðar verið í gríðarlegu undanhaldi, sjá link af afleiðingum. http://www.visir.is/article/2010837149487. Því er ekki nema von að fólk hugsi sig tvisvar um gagnvart börnum. En ég sagði nei því miður þá gæti ég ekki komið og skotið þennan ref því sumarbúðirnar væru inní þjóðgarði og þarna væri náttúran að hafa sinn gang og við mættum ekkert koma nálægt því ferli.W00t

refur í fjöru

 

Jæja þetta fer nú að verða gott í bili, er að vinna á Eskifirði þessa dagana aldrei að vita nema maður kíki eftir refum þar eitthvað. 

 

Kv, SveinnSmile

 

 


Refurinn étur mikið

 

Hvað étur refurinn mikið?


 

Miðað við tölur sem hafa fengist frá refabúum þá er reiknað með að fullorðin refur í búri éti um 210 kg á ári af fóðri. Ef við skoðum villtan íslenskan ref í því samhengi þá er gaman að reikna út hvað refurinn étur mikið útí hinni íslenskri náttúru. Samt er gott að velta aðeins upp nokkrum pælingum um hvernig sé best að reikna þetta út, t.d ætli þetta sé raunhæft magn miðað við eitt ár vegna þess að búrarefur er náttlega inní búri og hreyfir sig sama og ekkert og eyðir þar af leiðandi afar lítilli orku miðað við villtan ref sem labbar/skokkar 10-40 km per sólarhring. Svo það að ef við ætluðum að reikna út hve marga fugla hver refur þarf eigum við þá að miða við heildar þyngd fuglsins eða útfrá magni kjöts/æti sem refurinn fær útúr fuglinum eða öðru því sem hann verður sér útum. Það þarf líka að taka inní þetta árstímann þar sem að sumt er bara í boði hluta úr árinu. Það þarf einnig að taka tillit til ætissöfnunar (birgða söfnun fyrir veturinn) . Svo það að hvernig við skiptum upp reiknaðri fæðu þá er ég að meina hlutfall fugla, eggja, sauðfés, músa, berja o.þ.h. Þarna kemur einnig inní dæmið að hvar refirnir halda sig eða afla fæðu , nærri sjó eða lengra inn til landsins.

Í þessu tilfelli höfum við þetta einfalt og afar raunhæft, og reynum að fara milliveginn gagnvart fæðuvali og staðsetningu( fjöru eða heiði.)

þetta verður góður biti

Miðað við samantekt mína um þær heimildir sem til eru um fæðuskiptingu refanna þá er það gróflega svona (ATH þetta eru tölur af nokkur hundruð grenjum sem er safnað saman yfir sumartímann) :

Rjúpa- 15%

Gæs- 15%

Fýll - 12%

Allir aðrir greindir fuglar -12%

Ótilgreindir fuglar(ekki hægt að greina með vissu) -13%

Egg(óskilgreind) -10%

Sauðfé-15%

Úr fjörunni(fiskar hrognkelsi ofl) -4%

Annað (getur verið ansi margt t.d hræ, mýs ofl ofl) -4%

 

Áætlum svo: 1 rjúpa 0,5kg- 1 gæs 3,5kg - 1 fýll 0,8kg -aðrir fuglar tek saman hér í þennan flokk bæði greinda og ógreinda fugla og gef mér meðalgildi um 0,3 kg- 1 egg gefum okkur meðalgildi rjúpna eggs og gæsareggs 0,08 kg – 1 lamb 25kg

 

Miðað við þetta þá er einn refur á einu ári að taka:

  • 63 rjúpur

  • 9 gæsir

  • 32 fýla

  • 175 fugla annað ofantalið

  • 263 egg

  • 1,26 lamb

Ef að stofninn er 12.000 refir þá eru þeir að taka:

  • 756.000 rjúpur

  • 108.000 gæsir

  • 384.000 fýla

  • 2.100.000 fugla aðra en ofantalið

  • 3.156.000 egg

  • 15.120 lömb

 

Þetta fáum við út við notkun á ofangreindum forsendum. Þetta gefur okkur kanski aðeins betri mynd af því hvað tófan er að éta mikið á einu ári. Endilega commenta á þetta hvað ykkur finnst.

Gott í bili kv, Sveinn

     

 

 

 

 

 


Rjúpan

 

Jæja þá er nú kominn tími á að tjá sig eitthvað hér á veraldarvefnum eftir góða pásu frá því.

Ekkert hef ég nú skotið af ref síðan að síðasta blogg færsla birtist hér. En það hefur nú verið rætt eitt og annað í kringum náttúrunna við ýmsa góða menn. Meðal annars einsog oft áður þá hefur verið rædd áhrif refs og vargs á lífríkið , en það er nú kanski ekki skrýtið því engin veit það svosum nákvæmlega. En ég held að áhrif vargs sé vanmetinn á Íslandi þá er ég að tala um fleira en refinn. Maður fer að hugsa um störf þessara blessaðra fræðinga hér á Íslandi hvað er mikið vitað eftir áralangar rannsóknir á hinum ýmsu hliðum á náttúrunni  og svo rjúpunni ég tek rjúpuna hér sérstaklega þar sem að miklu púðri hefur verið eytt í rannsóknir á henni og það er alveg makalaust hvað kemur ekkert útúr þessu sjá frétt:

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/18/takmorkun_veida_skilar_ekki_arangri/

 

Það eina sem þessum manni dettur í hug er að segja að veiðar hafi verri áhrif en áður var talið!!! Hvað er málið eiginlega hvað hefur hann fyrir sér í þessu??? Sko ég bara skil þetta enganveginn það er aukning í stofninum á N-Austurlandi en þar er einnig skotið hvað mest af rjúpu en það er fækkun á sunnan og vestanverðu landinu. Sko ég veit ekki betur en að á suð vestur horni landsins séu hvað mestar hömlur á skotveiði þá bæði á rjúpu og vargeyðingu. Hvar eru línuritin yfir fjölda refa, minnka, sílamáfa, silfurmáfa, kjóa osfrv á móti þessum fækkunar og fjölgunartölum á rjúpunni.

Í mínum huga er það alveg klárt að rjúpan á Íslandi stendur ekki eða fellur með hvort að Óli Nílsen segi að það megi skjóta 50.000 , 75.000 eða 100.000 rjúpur að hausti.Og svo er það alveg klárt mál í mínum huga að það eru aðrir þættir sem telja mun meira heldur en skotveiði. Að sjálfsögðu veit ég að skotin rjúpa að hausti verður ekki talin að vori , étin rjúpa af varg verður heldur ekki talin að vori, rjúpna egg sem étin eru af vargi verða heldur ekki að rjúpu hvorki skotinni að hausti eða taldri að vori. Getur verið að aukningin á rjúpu á N-Austurlandi stafi af því að þar er gríðarlega vel haldið utanum vargeyðingar mál (alla vega betur en víða annarsstaðar). Þá minnist ég sérstaklega á það starf sem unnið er í minnkamálum t.d. Í kringum Öxarfjörð, þar sem þeir bræður Jóhann og Jóndi hafa unnið þrekvirki að losa okkur við minnkinn og halda því þannig og það nú orðið í algjörri sjálboðarvinnu þar sem að þeir hafa útrýmt minnkunum á allgríðarlega stóru svæði þá náttlega hafa þeir engin skott til að skila inn og þá fá þeir ekkert greitt!! Þökk sé svona mönnum sem vinna eftir hugsjón, áhuga og reynslu sinni í umgengni við náttúruna að rjúpunni fjölgar á N-Austurlandi.

Svo vantar inní þetta veðurfar, það eitt getur skipt sköpum hjá rjúpunni. Það segir í titli þessarar fréttar að “takmörkun veiða skili ekki árangri” nei að sjálfsögðu ekki það eru aðrið þættir sem telja svo mun miklu meira, að öllu venjulegu þá hefur það ekki afgerandi áhrif á rjúpnastofnin að Íslendingar borði rjúpur á jólunum það er svo einfalt, það er flest sem bendir til þess að rjúpnastofninn þoli það að þær séu borðaðar á jólunum. Það hefur verið sagt í fyrri rannsóknum að það séu ekki veiðar sem hafi mestar afleiðingar sjá mér til stuðnings: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2003/08/30/ekki_sed_sannfaerandi_gogn_sem_stydja_rjupnaveidiba/

 

Allavega er ég nú að hugsa um að hætta að leggja þessu lið með að leggja fram þær rjúpur sem ég skýt, og ég er einnig að hugsa um að hætta að gefa upp veiðitölur á rjúpunni í veiðiskýrslu minni er að hugsa um að skrá bara 0 svo er alveg á mörkunum að ég hafi geð á að borga fleiri veiðikort fyrst peningurinn rennur í þessa vitleysu, en ég VERÐ víst að gera það annars er hægt að hirða af mér öll vopn fari ég á veiðar án þess.

 

Jæja gott í bili

 

kv, Sveinn

 

 


Grenjavinnslan 2010

 

Góðan og blessaðan daginn.se_yfir_hei_arnar_800x600.jpg

Mynd 1: Séð yfir keldunesheiði og Garðsheiði

Jæja það er nú kominn tími á að fara að skrifa aftur. Hef ekkert skellt mér á lyklaborðið í sumar vegna anna í grenjavinnslu og svo var farið í örlítið sumarfrí vestur á firði. Var það nú í fyrsta skipti sem ég fer vestur og er þetta einstaklega flott svæði, við héldum okkur við suðurfirðina, ástæða ferðar okkar vestur var að fara á ættarmót. Gaman var að hitta innfædda vestfirðinga, ætlaði mér nú að kíkja á refasetrið sem opnaði nú í sumar en maður kemst ekki yfir alltí einu þannig að maður hefur enn ástæðu til að kíkja vestur :) Það var alveg sérstaklega gaman af að sjá Hafernina sveima þarna í kringum eyjarnar og firðina einkar tignarlegur fugl. Eina tófu sá ég í Kjálkafirði og var hún með hvolp með sér sjálfsagt á leið að kenna honum að veiða.

 

En mestur tíminn hefur nú samt farið í grenjavinnsluna hjá mér í sumar, fórum við Hjalti okkar annað sumar saman á grenin í Keldunes og Garðsheiði. Erum við alltaf að reyna að bæta okkur í upplýsingaöflun/skráningu á þessum veiðum okkar erum við farnir að skrifa niður allt sem okkur finnst markvert á okkar ferðum um grenin t.d. Hvort sé merkjanlegur umgangur eða eitthvað annað sem maður tekur eftir á grenjunum. Svo og þegar tófa er í greninu þá reynum við að greina fæðuleifar sem eru á greninu, í hvaða ástandi dýrin eru hve margir hvolpar, hvaða litur sé á dýrum og hvolpum osfrv.. Nú sendi ég í fyrsta sinn hræ til Páls Hersteinssonar til aldursgreiningar ofl reyndar náði ég ekki að senda öll hræin en vonandi fer þetta að komast í skipulagið hjá manni að ná að senda honum hræin. Verður gaman af að sjá niðurstöðuna úr því vegna þess að dýrin voru áberandi gömul, svo var á 3 greninu okkar að þar var snoðdýrslæða með snoðdýrshvolpa því miður þá misfórst að senda hana til Páls.

Eftir grenjavinnsluna tók Hjalti sig til og skrifaði býsna góða og skemmtilega samantekt yfir sumarið hjá okkur, og eftir samtal við hann að þá ákváðum við að birta það hér á blogginu vona að þið hafið gaman af.

 

Samantekt grenjavinnslu frændanna 2010:


 

Mánudagurinn 14. júní runninn upp. Frændur tveir örkuðu af stað til þess að hefja grenjavinnslu árið 2010. Að sjálfsögðu var förinni heitið í Ásbyrgi þar sem bíllinn var fylltur af eldsneyti og bakpokar af nesti, það hefur jú sjaldan klikkað að taka Ásbyrgisborgara með frönskum á milli með í heiðina.
Þetta árið var tekin ákvörðun um að byrja að leita frá Eyvindastaðarvegi. Fyrsta greni sem kíkt var í var Grenishóll, umgangur eftir hvítt dýr greinilegt af hárum, annað var ekki að sjá þar. Því næst var kíkt á greni sem Hjalti fann árið áður, "grenishola"

og hafði ekkert gerst þar. Því næst lá leið á Einarsgreni og var ekkert markvert að frétta þaðan.
Þegar þessu var lokið tölti Sveinn sér í bílinn en Hjalti hélt rakleitt á Jarðbakkann. Þar var svo sem ekkert að sjá utan þess að bein, sennilega úr tófu, voru inni í hellinum.
Hjalti hélt aftur í bílinn og þeir frændur héldu leit áfram, Illagreni var ekkert umgengið frekar en Hestakrókarnir sem komu þar næst á eftir. Hjartargreni og Víðigreni (sem var í árið áður (Mór refur, hvít læða og 4 yllar, 2+2) komu svo næst og var ekkert að sjá á þeim. Jafnagil kemur þar á eftir en það sem einkennir það greni er í raun býsna fjöldi af holum sem liggja meðfram gilinu. Þeir frændur kíktu í þær holur sem merktar eru og mátti sjá að tófurnar liggja býsna við þær á veturna. Þó var ekki hægt að sjá að umgangur væri nýlegur og því stefnan tekin á Stóragreni. Umgangur þar var lítill (minnir að það hafi verið hvít hár í munna) en það sem kom á óvart þar var rolluhræ við grenið, augljóslega frá árinu áður. Hvort þetta hafi verið heilt hræ eða hreinlega partar er ekki gott að segja.
Að þessu loknu lá leið þeirra frænda til baka, Sveinn stökk úr við norðurenda Jafnagilsins og tölti sér austur á Mundagreni þar sem umgangur var enginn. Því næst tölti hann norður á Nibbugreni (sem er töluvert labb) og þar var ekkert að sjá heldur. Var stefnan hjá Sveini sú að klára þetta labb með því að labba norður í Vatnshól en hann gerði það ekki því Hjalti hafði fréttir að færa. Á meðan Sveinn hafði verið í göngutúrnum hafði Hjalti keyrt norður fyrir skóginn, rölt norðaustur eftir Bláskógargötu og í átt að Hraunhólaréttinni. Þegar hann átti eftir um 600 – 800 metra sér hann að hvít tófa stendur heima á greninu. Sest hann því niður og fylgist með dýrinu athafna sig heima ásamt 4 hvolpum sínum. Þarf hann að sitja þarna í 3 tíma og bíða eftir því að læðan hafi sig burt af greninu svo hægt sé að koma sér heima að greninu, í byssufæri. Á meðan þessu stóð röltir Sveinn sér aftur vestur á veg frá Nibbugreni og þarf að rölta norður í bílinn þar sem Hjalti hafði skilið við hann.
Hjalti sér að læðan fer að heiman um 20:00 um kvöldið og hraðar hann sér heim á grenið, í um 75 metra færi frá greninu. Hann er ekki löngu lagstur þegar annað dýrið kemur heim, afar ljóst dýr, með æti í kjaftinum. Yrðlingarnir koma fagnandi út á móti og taka við ætinu, dýrið snýr sér við og fær þá himnasendingu beint í bóginn. Hjalti hljóp heim á grenið og sótti dýrið þar sem hann sá það ekki þaðan sem hann lá. Kom þá í ljós að þetta var mórauður refur, lítið sem ekkert grensmoginn og virkaði þar af leiðandi hvítur þar sem vetrarhárin voru svo upplituð. Þetta gerist um 21:00 og miðar Sveini vel á göngu sinni. Um 22:00 kemur læðan heim, augljóslega sama dýr og Hjalti hafði fylgst með í 3 tíma fyrr um daginn, og hafði hún æti í kjaftinum. Það sem einkennandi var fyrir hana var hversu mikið hvít hún var, þá aðallega eyru og skott. Þegar hún átti eftir um 5 metra í grenið stoppar hún skyndilega og snýr framhlutanum í átt til Hjalta og varð það hennar hinsta stopp. Þegar þetta gerist á Sveinn eftir um 400 metra til Hjalta og flýtti hann sér því til frænda síns. Þeir fengu sér smá nesti, skelltu sér heim á grenið og gerðu tilraun við að gagga hvolpana út. Það virkaði vel og komu þeir allir en þeir frændur eiga ennþá eftir að þróa hvernig sé best að standa að þessu. Þeir höfðu tækifæri til þess að ná þeim nokkrum en úr varð að Sveinn skaut 1 hvítan hvolp og fóru þeir frændur heim eftir þetta þar sem byrjað var að rigna. Þetta gerist upp úr miðnætti og vissu þeir frændur því að eftir voru 3 yrðlingar, 2 mórauðir og 1 hvítur.hraunholarettar_pari_og_einn_hvolpur_800x600.jpgse_heim_a_hraunholarettar_greni_800x600.jpg

Mynd 2 Hraunhólaréttarparið og 1 hvolpur--  Mynd 3 Séð heim á hraunhólaréttargrenið.
Nokkrum dögum seinna lá Hjalti við grenið og skaut 1 mórauðann hvolp og nokkrum dögum eftir það var Guðmundur refaskytta sendur á staðinn og náði hann að skjóta þá 2 hvolpa sem eftir voru. Grenið fullklárað!

 

Næst var ákveðið að fara suður Laufásveg. Er fyrsta grenið á þeirri leið Vörðuhóllinn. Þegar frændur koma þar að þykjast þeir sjá að ekki er allt með felldu. Hægt er að sjá heim á grenið frá veginum en þetta er býsna vegaleng svo ekki er hægt að gera sér almennilega grein fyrir því. Þeir ákveða því næst að tölta heim á grenið léttir, þ.e.a.s. án þess að taka með sér dót, einungis riffill og haglabyssa höfð með í för. Þegar þeir koma heim á grenið er ekkert um að villast að þarna hefur tófa lagt og grenið býsna útsparkað. Urðu frændur því frá að hverfa og fara aftur í bílinn til þess að sækja bakpoka sína. Þegar þeir koma að greninu í annað skiptið bregða þeir á það ráð að Hjalti leggst í helli sem er staðsettur í Vörðuhólnum sjálfum, en grenið er í litlum hól, um 20 metra sunnan við Vörðuhólinn. Lá Hjalti því í haglabyssufæri. Sveinn fór upp á Vörðuhólinn austantil og lá þar með riffil skyldi hann verða var við ferðir fullorðnu dýranna. Þetta gerist allt seinnipartinn og þegar þeir frændur hafa legið þarna dágóða stund leggja þeir á ráðin að best sé að Hjalti fari til Sveins og Sveinn færi sig sunnar í hólinn, þannig að hann sé í haglabyssufæri við grenið sjálft en Hjalti standi vörð með riffil. Þetta gera þeir og þegar klukkan er um 23:00 um köldið verða þeir varið við að tófa vælir undan þeim skammt austur, Hjalti kemur auga á hana, mórauða tófu, en of seint því var hún komin í um 400 metra færi og fjarlægðist. Var því ekkert hægt að gera. Þeir liggja þó áfram og verður Sveinn var við yrðlingana þegar þeir koma út að leika sér, 4 mórauðir og 2 hvítir. Um 1:00 ákveða þeir frændur að færa sig vestur fyrir grenið og liggja því báðir klárir með riffla. Höfðu þeir ekkert orðið varir og þótti því ástæða til þess að breyta einhverju. Þeir sáu aðeins til yrðlingana sem komu út stöku sinnum en þeir lágu alla nóttina og fram undir hádegi daginn eftir án þess að verða nokkuð varið við ferðir dýranna. Eftir ískalda nótt, -2*, ákváðu þeir að prófa að kalla yrðlingana út og gekk það vel utan þess að aðferðin er ekki nógu vel útfærð hjá þeim og endar það með því að Sveinn skýtur í þvöguna af stuttu færi með haglabyssi og hvolparnir hrúgast inn. Heyrir hann skræki í þeim innan úr greninu en aðeins 1 hvítur hvolpur liggur eftir fyrir utan grenið dauður. Fara þeir frændur því heim til að hvíla sig og safna kröftum enda útséð að þarna sé barátta framundan. Þeir skilja grenið þó eftir opið og vonuðust til þess að dýrin myndu ekki hafa hvolpana á brott með sér.
Seinna sama dag voru þeir frændur mættir aftur, Hjalti tölti heim á grenið og lá í haglabyssufæri enda planið að reyna að fækka hvolpunum (Reyndust mistök á endanum). Sveinn fór dálítinn spöl suður fyrir grenið á bílnum og labbaði Bláskógargötuna til norð – austurs og kom þaðan labbandi beint norður að greninu. Var Hjalti þá búinn að verða læðunnar var en hann sá hana í kíki vera að snudda suður af greninu. Hefði hann haft riffilinn klárann hefði hann eflaust getað komið á hana skoti, færið um 200 metrar. Færir hún sig svo töluvert lengra frá greninu eða í 500 metra færi ca. Lætur hann Svein því vita og kemur hann aftan að læðunni. Sveinn kemur auga á hana en hún er þá of langt í burtu til þess að koma á hana skoti svo hann verður að læðast til þess að kaomst nær. Á einum tímapunkti fær hann læðuna í sigtið á kíkirnum en finnst hún of langt í burtu til þess að þora að skjóta (sem voru önnur mistökin þetta kvöldið) en þegar hún var svo farin gat Sveinn mælt færið og var það rúmlega 200 metrar sem verður að teljast býsna gott færi. Hjalti verður ekkert var við hvolpana svo þeir frændur verða frá að hverfa og ljóst að þessi barátta ætti aðeins eftir að harðna. Hjalti lokaði greninu og setti á það hræðu, nú skyldi gera eina tilraun enn.
Daginn eftir fara þeir frændur á grenið ásamt þeim feðgum, Smára og Binna. Hjalti og Smári fara suður Laufásveg og kemur Hjalti sér fyrir í Vörðuhólnum sjálfum en Smári kemur sér fyrir Suð-Vestur af greninu, um 500 metra frá því. Sveinn og Binni fara suður Eyvindastaðaveg og Binni kemur sér fyrir um 600 metra Suð-Austur af greninu en Sveinn kemur sér fyrir í um 800 metra fjarlægð, beint Suður af greninu. Höfðu þeir komið sér fyrir um kl 18:00 seinnpartinn og ekkert gerist fyrr en um 23:00 að Hjalti verður var við læti í lóum og þröstum norðan við sig, þegar hann lítur við sér hann hvar mórautt dýr kemur hlaupandi að austan til vesturs og eru þá góð ráð dýr. Hjalti snýr sér við og hleypur nokkra metra til norðurs, svo hann hugsanlega komi skoti á dýrið. Dýrið verður vart við ferðir Hjalti og tekur á sprett til norðurs og er við það að sleppa en gerir þau reginmistök að stoppa eldsnöggt í um 300 metra færi og voru það hans síðustu mistök. Var þetta þá mórauður refur af greninu og töldu þeir frændur að ekki væri um að ræða sama dýr og þeir höfðu séð kvöldið áður.
Að lokum fór svo þannig að Hjalti gerði sér ferð og náði 2 mórauðum hvolpum með riffli og varð aðeins var við 1 hvítan í viðbót sem Sveinn svo skaut skömmu seinna. Ekkert varð vart við hina yrðlingana 2 og ályktuðu þeir frændur að þeir hefðu drepist þegar Sveinn skaut á hópinn með haglabyssunni. Læðan náðist ekki.

Leit hélt áfram. Sveinn kíkti í Skógarhæðirnar þar sem enginn umgangur var. Því næst lá leið þeirra frænda upp í Garðsháls þar sem nokkur greni biðu þeirra. Fyrsti stoppistaður var Klöpp, enginn umgangur. Því næst lá leið í Magnúsarhólinn, þar upp á Víðivelli, því næst á Frændann (sem var í árið áður, 2 Mórauð dýr og 4 hvolpar, 2+2 að lit, refurinn náðist ekki) og Dokkina en enginn umgangur var í þessum grenjum. Þeir frændur breyttu aðeins merkinu á Frændanum þar sem þeir sáu sér leik á borði að liggja sunann við grenið. Bensagreni og Hálsbrún voru tekin því næst en þar var enginn umgangur.

Nú átti aðeins eftir að leita frá Garðsvegi og þar sem Sveinn var staddur á ættarmóti vestur á fjörðum fékk Hjalti Smára til liðs við sig. Þeir héldu af stað laugardaginn 26 júní og varð fyrsti viðkomustaður Þórarinsgreni. Þar hafði ekkert gerst svo þeir héldu á Vestari Selstaðarhlíðar. Þar var mikið um tófuskít sem var orðinn nokkuð gamall, enginn umgangur var um holurnar sjálfar svo líklegt er að þetta sé vinsæl vetrarhola hjá tófum. Því var bara eftir eitt greni, Fjárborgin. Þeir félagar voru þangað komnir um 17:00 og eru að hafi sig heim á grenið þegar Smári sér skyndilega að það er tófa heima á greninu. Hann leggst niður og skýtur á hana en skotið missir marks og tófan rýkur í burtu argangi til austurs. Þeir reyna að heyra hvar hún er og endar það með því að hún gaggar um 800 metra sunnan við þá og Hjalti þykist sjá hvar hún liggur á hól og horfir á þá en lætur sig svo hverfa. Þeir lágu til 2:00 um nóttina og urðu ekkert varir, settur hræðu á grenið og fóru heim.
Daginn eftir fóru þangað saman 5 vaskir menn. Smári lá um 600 metra vestan við grenið, Jóhannes og Guðmundur lágu í riffilfæri við grenið og tóku hræðuna, Binni lá um 600 metra sunnan við grenið og Hjalti lá í um 100 metra færi við hólinn sem hann taldi sig hafa séð tófuna í kvöldið áður. Þeir voru lagstir um 18:00 og urðu ekkert varir fyrr en hvítt dýr kemur töltandi utan í hólinn sem Hjalti hafði séð hana í. Skaut hann hana þar og kom í ljós að þetta var hvít snoðdýrslæða. Guðmundur setti boga í grenið og í þá komu 3 snoðdýrsyrðlingar. Sveinn átti svo leið á grenið nokkrum dögum seinna til þess að vitja boganna og ná í þá þegar hann sér fugla vera að hamast í einhverju. Sér hann þá tófu á hlaupum sem hann kom skoti á og var þar refurinn fallinn. Ekki fengust fleiri yrðlingar í bogann svo grenið talið fullunnið!

snoðdýshvolpar af fjárborgargreni 2010 [800x600]  Mynd 4 snoðdýrshvolpar af fjárborgargreninu

Þannig var grenjavinnsla 2010 hjá Veiðifélaginu Frændunum, Refadeild.
Fyrir hönd frændanna, Hjalti Guðmundsson

 

Vona að þið hafið gaman af þessu

Góðar stundir  

 kv, Sveinn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sveinn Björnsson

Höfundur

Sveinn Björnsson
Sveinn Björnsson
Menntaður vélsmiður. Er refaskytta og áhugamaður um íslenska náttúru.

Spurt er

Eru refaveiðar mikilvægar?

Nýjustu myndir

  • selstaðarhliðar
  • gráhóll
  • nibbugreni
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband