Föstudagur, 9. desember 2011
Gagga einsog refur..
Að gagga til sín refi.
Það er ein sú skemmtilegasta veiðiaðferð við tófur, að mínu mati. Það að geta gaggað til sín tófur er mikil kúnst. Miklar æfingar geta farið í að ná hljómburðinum. Þetta er líka eitt það besta "hjálpartæki" ef svo má segja sem völ er á við glímuna við refinn. Að geta gaggað yrðlinga útúr greni getur sparað marga klukkutíma í yfirlegu við þá. Að geta gaggað til sín tófur á víðavangi er náttlega bara snilld
En til að geta þetta þá er ekki verra að vera búin að heyra í alvöru tófum gagga. Göggin geta verið afar misjöfn, þá sérstaklega hvað varðar lengd gaggana og þýðing þeirra. Theodór Gunnnlaugsson heitin hefur útskýrt þetta vel, finna má mikinn fróðleik eftir hann bæði við að lesa bókina hans sem heitir "á refaslóð" og svo er til eitthvað á netinu m.a. er hægt að heyra hann gagga og þá um leið að útskýra mál refanna. Hann skiptir máli refanna uppí 3 meginflokka, þ.e. Þeirra daglega mál sem kallast gagg og dekurhljóð, svo hljóð sem táknar yfirvofandi hættu og svo í 3 lagi hljóð sem þýðir að dýr sé í helgreipum og biður um hjálp. Ekki ætla ég að sinni að fara að útskýra hvern þátt fyrir sig hér, því best er að hlusta á Theodór sjálfan, þið finnið þetta inná refur.is
En það má segja að tófur "tala" býsna mikið saman. Þegar læða kemur heim á greni með æti fyrir yrðlingana þá talar hún við þá með dekurhljóðum og að sama skapi ef að hætta steðjar að þá vara þær hver aðra við með hættuhljóðum. Svo nota þær þetta mikið til að kalla á hver aðra, bæði auðvitað á mökunartímanum, sem ég hef nú minnst hér á í öðrum pistli og svo þegar hvolpar eru ungir þá gaggast þeir oft á til að hittast og svo til að kalla á foreldrana séu þeir orðnir óþreyjufullir að bíða eftir matarbita.
Þegar gaggað er til sín tófu á víðavangi þá hefur mér gengið best seint á sumrin og framá haust. Svo og einnig seinni part vetrar þegar mökunartíminn er í hávegum. Þegar nota á gaggið er best að reyna ekki að ofnota það, þá er ég að meina sé farið á stað og gaggað að vera þolinmóður. Það þarf að gefa staðnum minnst 15-20 min. Það er nefnilega ekki alltaf sem þær svara endilega heldur koma bara rakleitt á hljóðið. Þær ná að staðsetja hljóðið alveg nákvamlega. Þannig að best hefur mér reynst að gagga ca 2 sinnum með ca 5 raða tónaröð og svo bíða. Þær munu ekki koma aftur á svona gagg verði þær varar við mannin, því þarf að vera alveg rólegur þangað til að maður er fullviss um að það sé engin tófa á leiðinni... en það er kanski auðveldara sagt en gert heheheh
Eitt sinn um miðjan ágúst fer ég uppí heiði, á stað þar sem að ég hafði grun um að tófur gætu verið á ferð. Það var alveg gríðarlega gott veður, alveg dúnalogn og vel hljóðbært, því þurfti að vanda gaggið afar vel ef vel átti að ganga. Ég kem mér fyrir á fyrirfram ákveðnum stað, fór þá lúmskustu leið sem mér datt í hug að fara svo að vonandi yrði engin tófa var við þennan mannagang í heiðinni tók mér allan þann tíma sem ég vildi. Þegar ég var búinn að koma mér fyrir þá tók ég upp sjónaukann og skimaði svæðið eins vel og ég gat. Ég varð hvergi var við að tófa væri á ferðinni, þá teygði ég mig í flautuna gaggaði 2 sinnum og lagðist á milli þúfna og lét ekkert á mér bæra. Ég horfði til norðurs því þaðan taldi ég mestar líkur á að tófa gæti komið. Ég hlustaði vel hvort einhversstaðar heyrðist í fugli rjúka upp eða að einhver fuglinn varaði við óboðnum gesti, ekkert heyrist eða sést. Mér á vinstri hönd var smá klöpp, sem ég hafði hugsað mér að nota til að leggja riffilinn á ef að kæmi tófa. En riffilinn hafði ég lagt niður rétt fyrir aftan mig. Eftir um 3-5 min bið þá alltíeinu heyri ég að einhver kemur aftan að mér og hann er móður ég róta mér ekki svo heyri ég bara tiplið í honum þegar hann skokkar yfir klöppina, lít þá til hliðar þá er mættur mórauður refur, hann horfir með forundran á þetta kvikindi sem liggur þarna á milli þúfna. Ýmislegt fór í gegnum huga minn á þessum tímapunkti.. "ætti ég að reyna að grípa hann.. nei geri það ekki hann gæti bitið mig, það væri örugglega vont, afhverju tók ég ekki með mér haglabyssuna? helvítis letin nennti ekki að bera 2 byssur.. en eitthvað verð ég að gera " Þegar að þessum hugarrenningum mínum lauk þá fór refnum að leiðast að virða fyrir sér þennan aðkomumann, hann skokkaði á stað þá náði ég að skríða að rifflinum og koma honum í skotstellingu, og náði að skjóta þennan ref. þetta var þá hvolpur frá sumrinu og sennilega vanur því að foreldrar hans kalli á hann þegar er kominn matur. Er þetta sú tófa sem hefur komið hvað næst mér þegar ég hef verið að gagga.
Með von um að þið hafið gaman af kv, Sveinn
Hér er linkurinn til að hlusta á frásögn og gagg Theodórs, ég mæli með að þið gefið ykkur tíma til að hlusta á kallinn segja frá og hvernig hann hefur náð gaggi þeirra afar vel. Veljið skrá númer 2 og njótið :)
Um bloggið
Sveinn Björnsson
Tenglar
Videó
- Mórauður refur skotinn við æti Legið fyrir hinum íslenska ref
- Rauðrefur kemur á flautu Hér má sjá svía kalla til sín rauðref
- Tófan, myndband-Eggjaþjófurinn Smá video af tófunni að afla sér fæðu
- Tófan að ná sér í gæsarunga Tófunni þykja ungar góðir
- Tófur að sumarlagi á svalbarði Hvolpar á ferð á Svalbarði
- Refaveiðar með Örnum í Mongólíu Mongólískir veiðimenn halda uppi ævaforni hefð
Tenglar á Tófusíður
- Bjarmaland Heimasíða Bjarmalands, félag atvinnuveiðimanna á ref og mink
- Melrakkasetur Íslands Fræðasetur sem er helgað íslenska refnum, kíkið á þetta fullt af myndum og mikið af upplýsingum.
Spurt er
Eru refaveiðar mikilvægar?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þessi saga er náttúrulega ótrúleg! En hvernig er að fara út núna um 5 leytið að flauta? Ekki góður árstími?
Víðir Örn Jónsson (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 13:57
Sæll aldrei neitt öruggt en nú fer fengitíminn að byrja og þetta ætti að virka ef þú veist hver eru tófur. En persónulega finnst mér betra að bíða þar til þegar bjart er framyfir 18
kv, Sveinn
Sveinn Bj (IP-tala skráð) 19.1.2012 kl. 18:42
Sæll, jæja fer ekki að líða að nýjum pósti?? Er ekkert að gerast í vetrarveiðinni hjá þér
Kv. Víðir
Víðir (IP-tala skráð) 7.3.2012 kl. 22:52
Sæll Víðir jú hann fer að detta inn á næstu dögum :)
En vetrarveiðin: sjá á refaspjallinu ;)
sveinn (IP-tala skráð) 7.3.2012 kl. 23:17
Já sá það seigur :) Vil fá frekari útlistun á því.
Ég er búinn að fara aðeins að flauta undanfarið, tókst að flauta til mín tófu í fyrsta skiptið en það var orðið svo dimmt þegar hún kom að ég sá ekki hlaupið á byssunni og náði henni ekki, hef farið nokkrum sinnum síðar en ekki orðið var.
Kv. Víðir
Víðir Örn (IP-tala skráð) 9.3.2012 kl. 01:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.